Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Frá Ingibjörgu systur Þorleifs

Úr Wikiheimild

Ingibjörg hét systir séra Þorleifs Skaftasonar. Hún giftist og bjó í Húnavatnssýslu, en ei veit ég hvar það var og ekki heldur hvað maður hennar hét; en mælt ef að þau væru vel fjáreigandi.[1] Þá er þessi saga gjörðist var hart ár og mikil umferð af fátæku fólki. Frétti séra Þorleifur að þó systir hans vildi gjöra einhvurjum fátækum gott fengi hún ekki þess ráð hjá bónda sínum og fór af þessu orð illt. Féll séra Þorleifi það illa og vildi verða vís hvað satt væri í þessum orðróm er út barst. Hann býr því ferð sína seint um haust þangað er systir hans bjó, og hafði með sér sveina nokkra. Segir ekki af ferðum hans fyrr en þeir vóru komnir allnærri heimili Ingibjargar. Þá var á liðið dag og lét séra Þorleifur reisa tjald og kvaðst þar mundi náttstað hafa; sendir svo einn sinna manna til mágs síns og systur að segja þeim að búast við þarkomu sinni að næsta dags morgni. En sjálfur býr hann sig í tötra og torkennir sem mest, tekur sér staf í hönd og hatt slæman á höfuð og stumrar svo um kvöldið heim að bæ systur sinnar, ber á dyrum og kom stúlka ein til dyranna og spyr hvur hann sé og hvað hann vilji. Hann kveðst vera fátækur förumaður langt að kominn, „og bið ég þig skila til húsráðanda að ég biðji hann að lofa mér að vera í nótt.“ Stúlkan fer inn og kemur út aftur og segir að hann eigi að koma inn; fylgir honum svo til baðstofu og lætur hann setjast á rúmbæli nærri baðstofudyrum, en í hinum enda baðstofunnar var afþiljað hús og voru þar hjónin inni. Er nú sofið í myrkri og síðan farið að kveikja. Var þar fólk margt. Þegar nýbúið var að kveikja kemur mágur Þorleifs fram úr húsinu og hefur óþæfðan sölusokk og segir við vinnukonu eina að bleyta í honum og fá hann gestinum til að þæfa, það sé nær en hann sé iðjulaus. Vinnukonan gjörir það og fær hann svo Þorleifi, en hann læzt fara að þæfa. Líður svo kvöldið og til vökuloka; er þá farið að skammta vökvun. Var Þorleifi fært í litlum aski grautur og flautir. En þegar átti að fara að hátta kom húsbóndinn fram úr húsinu og fór að skoða sokkinn hjá séra Þorleifi, og var þá engu betri en þegar hann tók við honum. Bóndi varð æfur við og sagði: „Svona eru húsgangar og betlarar; þeir vilja fá mat og hvað annað, en ekkert vinna og væri nær að hýsa aldrei slík óhræsi.“ Síðan sló hann með sokknum á vanga Þorleifi og gekk svo í hús sitt aftur; en ekki fékk Þorleifur að sjá systur sína; en honum var sagt að liggja í bæli því er hann hafði setið á um kvöldið.

Þegar fólk var komið í svefn og myrkt orðið í baðstofunni finnur séra Þorleifur að á honum er tekið og spyr hljóðlega hvur þar færi, en sú sagði til sín. Var þar komin stúlka sú er fylgdi Þorleifi inn um kvöldið, og færði honum kúfaðan átmatardisk og sagði: „Þetta bað húsmóðir mín mig að færa þér og ef þú borðar það ekki allt í einu, auminginn, þá áttu að stinga hjá þér afgangnum, en láta diskinn niður með höfðalaginu í rúminu svo hann sjáist ekki.“ Þorleifur þakkar henni fyrir sína frammistöðu og biður hana að skila ástarþakklæti til konunnar fyrir matinn. Fer stúlkan burt, en Þorleifur gjörði við matinn það er honum sýnist. Þykist hann nú af þessu sjá að það muni satt að systir hans hafi lítil ráð hjá bónda, en hafa þó vilja á að gjöra gott. Fór hann á fætur á undan öðrum og gekk þangað er sveinar hans vóru og kastar nú stafkallsbúnaðinum. Um morguninn eftir fótaferðartíma kemur Þorleifur með sveinum sínum heim að bænum. Gekk þá mágur hans út á móti honum og fagnaði honum vel, segjandi þá alla velkomna. Fann séra Þorleifur svo systur sína og fagnaði hún honum ágætlega, en mjög þótti honum hún dapurleg. Reis þar upp veizla og var séra Þorleifi og hans mönnum veitt kappsamlega og var bóndi hinn kátasti. Séra Þorleifur segir þá: „Mikill munur er á þessum veitingum og þeim er ég fékk í gærkvöldi.“ Bóndi spyr hvurt hann hafi þar fyrri komið. „Já,“ sagði hann, „ég er nú sá sami förukall sem hjá þér gisti í nótt og þú barðir með sokknum í gærkvöldi. Er nú mitt erindi að ég ætla að taka systur mína frá þér, því ég get ekki liðið að hún sé gift slíkum nirfil og svíðingi sem þú ert.“ Það má nærri geta hvurnig bónda varð við þetta og bað Þorleif umfram allt að taka ekki frá sér konuna, því það félli sér þyngst; en Þorleifur kvað honum það maklegt þó hann tæki nokkra skrift fyrir sitt athæfi. Ingibjörg gekk þá að og bað Þorleif að setja honum einhvurn skilmála annan, því hann væri sér góður að öðru leyti en því að hún réði litlu. Hann lét þá sefast og sagði við bónda: „Ég skal lofa þér að hafa konuna ef þú lofar mér því staðfastlega að láta hana sjálfráða að gjöra gott það er hún vill og efni ykkar leyfa.“ Lofaði bóndi því hátíðlega. Dvaldi séra Þorleifur þar um hríð og var virðuglega út leystur. En bóndi enti vel loforð sitt og lét Ingibjörgu ráða eftir hætti meðan þau voru saman; enda hélt séra Þorleifur spurn um það og heyrði aldrei nema gott um bónda þar eftir.

  1. Ingibjörg átti fyrst Ólaf Þorláksson (1663-1728) lögréttumann og stúdent, bjuggu í Héraðsdal í Lýtingsstaðahreppi í Skagafirði, en síðan Jón Eggertsson á Steinsstöðum í sömu sveit (d. 1774).