Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Séra Vigfús og bræðurnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Séra Vigfús og bræðurnir

Séra Vigfús sem seinast var prestur á Kálfafellsstað í Austur-Skaftafellssýslu og miðaldra menn muna eftir var fyrst prestur á Stað í Aðalvík. Þar í sókninni voru þá margir galdramenn sem áttu í ófriði við prestinn. Þar í sveitinni voru bræður tveir. Einn laugardag fór prestur ásamt þeim sjóveg út í ey eina með lömb sín og þegar þeir voru komnir að eyjunni settu þeir upp lömbin og prestur gekk síðan á land, en þeir voru eftir í bátnum. Þegar prestur kemur aftur ofan að sjónum hvar báturinn átti að vera voru þeir farnir á bátnum og skildu prest eftir.

Kona prestsins hét Málfríður; hún var mesta skýrleikskona og vissi flesta og alla hluti frá sér og var sögð að vera göldrótt. Hún er komin niður að sjó þegar báturinn kemur að landi og spyr þá bræður að hvar séra Vigfús sé. Þeir segja hann sé að búa til ræðu fyrir morgundaginn, og glotta við. Hún svarar að vel geti skeð að hann tali við kollinn á þeim á morgun og svo skilja þau og þeir fara heim til sín og kæra sig ekki meir um prestinn.

Snemma daginn eftir koma þessir sömu bræður til kirkju og þegar þeir koma inn í kirkjuna er prestur kominn fyrir altarið og heldur yfir þeim ræðu sem var mergjuð og þeir áttu skilið. Eftir messu segir maddama Málfríður við þá: „Nú fengu þið ræðu sem þið þurftuð með og rétt var mátuleg fyrir prestinn.“ Þeir svara að þeir hafi ekki þakkað prestinum enn fyrir þessa ræðu, en þeir skuli gjöra það einhvern tíma seinna.

Allt sumarið komu þeir ekki til kirkju fyrr en á fyrsta sunnudag í vetri koma þessir sömu bræður báðir til kirkju. Svoleiðis var varið að annar var giftur og sat í kór, en hinn var ógiftur og sat fram í kirkjunni. Kona prestsins Málfríður sér að bræðurnir eru alltaf að glotta hvor framan í annan, og þegar prestur er nýkominn upp í stólinn þá ganga þeir báðir út og nú líður nokkur stund, og þegar prestur er kominn fram í miðja ræðu sína þá kallar Málfríður til manns síns: „Fúsi, gakktu út, það mun ekki seinna betra.“ Prestur hættir strax ræðu sinni, gengur út úr kirkjunni og upp fyrir garð. Þá sér hann hvar annar bróðirinn er að kynda undir potti, en hinn er að skrifa einhverjar galdrarúnir. Prestur gengur þar að og ætlar að hella úr pottinum. En þá er Málfríður kona hans komin þangað og segir hann skuli ekki gjöra þetta, heldur tekur hún pottinn og hellir því sem í honum var ofan yfir höfuðið á öðrum bróðurnum, en kastar pottinum af hendi í hinn, og þeir liggja strax steindauðir. Málfríður hélt á eftir að ekki mundi seinna hafa verið betra því þeir hafi ætlað að drepa síra Vigfús í stólnum með göldrum sínum.

Meðan séra Vigfús var prestur í Aðalvík átti hann alltaf að berjast við galdramenn og seinast hlaut hann að sækja þaðan þar hann var ekki óhræddur um líf sitt. Alltaf eftir það að hann varð prestur í Austur-Skaftafellssýslu voru þeir að senda honum sendingar; en kona hans gat snúið þeim til baka og hamlað því að þær gjörðu honum mein. En það hafði síra Vigfús sagt að þeirra vondu sendingar mundu gjöra út af við sig ef hann lifði lengur en kona sín. En hún lifði lengur svo hann dó í góðri og rólegri elli.