Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Villan

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Einu sinni ætlaði séra Vigfús um vetrartíma suður á land og kom í Öræfin. Hann kom á afliðnum degi að Hnappavöllum og ætlaði hann að ná um kvöldið inn að Hofi sem ekki er tímareið. Honum var boðin fylgd inn að Hofi, en prestur þóttist ekki þurfa þess og svo fer hann á stað, en í dögun um nóttina eftir er guðað á glugga á Litlahofi sem er kot rétt hjá Hofi; þar bjó þá Bjarni – og Ingibjörg hét kona hans. Hún fer strax út og er hissa að sjá prest svona seint á ferð. Hann biður konuna að lofa sér að vera og segist hafa átt örðugt að komast hingað og biður konuna að láta ljós loga hjá sér það sem eftir sé nætur, og gjörir hún það.

En það er af Málfríði konu prests að segja að hún leggur sig út af í rökkrinu, en hrekkur strax upp aftur og segir: „Nú á Fúsi minn bágt,“ og grípur strax gráa tusku út úr barmi sínum og fer að naga hana og er að því alltaf alla kvöldvökuna og fram undir dag um nóttina og er að róa sér, en þegar komið er undir dag þá hættir hún að naga gráu tuskuna og segir: „Nú læt ég það vera, nú held ég honum sé óhætt.“

Síra Vigfús hafði verið fátalaður um þetta, en hafði þó sagt einhverjum að þegar hann kom inn að á sem heitir Gljúfursá sem er milli Hnappavalla og Fagurhólsmýrar þá hafi hann séð sjón sem hann kæri sig ekki um að lýsa fyrir neinum og hún hafi varið sér upp úr ánni og komið á sig villu. Og þegar hann kom að Litlahofi þá hafði hann komið ofan úr fjallsskarði fyrir ofan bæinn hvar engir mannavegir voru um.