Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Sakamaðurinn

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Í landnorður frá Vogsósum er hellisskúti í hrauninu skammt frá alfaravegi; hann er kallaður Gapi. Ferðamenn liggja oft í helli þessum eins og í sæluhúsi. Í helli þessum leyndi Eiríkur prestur sekum manni heilt sumar. Maðurinn var austan af Síðu og hafði þar orðið mannsbani svo það átti að drepa hann. Þeir sem um veginn fóru sáu aldrei hellinn Gapa þetta sumar, því Eiríkur hafði brugðið yfir hann hulu og eins Vörðu þá sem stóð á hólnum hjá honum, og mundu þó margir eftir hvorutveggju.

Sakamaðurinn hafðist þarna við í hellinum um sumarið og gengu lýsingar á honum um allar sveitir og skipun að taka hann fastan hvar sem hann næðist. Eiríkur prestur fékk einn af seðlum þessum. Sendi hann þá manninn sjálfan með hann austur á Síðu, en enginn gat þekkt hann. Eiríkur lét hann skila því með að maðurinn hefði náðst í Selvogi og sæti hann nú í fjötrum og væri geymdur í Strandarkirkju. Þangað skyldu þeir sækja hann hið allra fyrsta. Maðurinn fór, lauk erindi sínu og sneri svo suður aftur í helli sinn. En Síðumenn brugðu við og fóru suður í Strandarkirkju. Þar fundu þeir manninn í fjötrum. Var hann þá fluttur austur og átti nú að höggva höfuðið af honum því svo hafði hann dæmdur verið. En þegar til kom beit ekki öxin og beyglaðist eggin í hverju höggi. Hættu þá Síðumenn og fluttu hann á skip og ætluðu að senda hann til Danmerkur því þar ætluðu þeir öxunum að bíta. En þegar þeir komu með hann út á skipið hvarf hann og var þar þá steindrangi einn með böndum á. Urðu skipverjar þá æfir við Síðumenn og ráku þá burtu með sneypu, en vörpuðu sökudólgi þeirra fyrir borð.

Síðumenn sáu nú hversu Eiríkur hafði gabbað þá og vildu hefna sín. Fengu þeir til þess mann á Vestfjörðum og sendi hann Eiríki kött. Stóð Eiríkur þá úti á hlaði þegar kisa kom og ætlaði hún að hlaupa um háls honum og drepa hann. En þá var hjá Eiríki maður sá sem forðum sótti kverið og hjálpaði hann Eiríki til að drepa köttinn. Sagt er að Eiríkur hafi sent Vestfirðingnum draug sem honum hafi orðið að bana.