Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Steikin
Útlit
Annað vor lá hann á greni inn í Grjótárbotnum og sami piltur með honum. Kalt var úti, en þeir svangir; þá segir Jón: „Heldur þú að þú ætir góðan bita ef þú fengir hann, drengur minn?“ „Ég veit ekki hvað þú heldur,“ segir pilturinn. „Leggstu þá niður og líttu ekki upp fyrr en ég segi þér; þar ríður mér á,“ sagði Jón. Pilturinn leggst á grúfu og þorir ekki upp að líta fyrr en Jón kemur. Hefur hann þá fjórðapart af sauðarskrokk steiktan og brennheitan, allan sykraðan, og segir: „Nú megum við ekki leifa.“ Þeir settust svo niður og átu allt upp og urðu vel mettir. Þá sagði Jón við drenginn: „Viltu ég segi þér hvaðan þetta var?“ „Já,“ segir hinn. „Það hvarf frá kokkinum þegar hann var að bera inn á kóngsborðið.“