Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Tófan og gæsin

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Tófan og gæsin

Þegar Jón Þórðarson bjó á Dalhúsum í Eiðaþinghá fór hann á greni inn í Dali og með honum piltur. Þegar hann var búinn að liggja nokkuð á greninu náði hann annari tóunni, en hin var styggari svo honum fór að leiðast. Segir hann þá við piltinn stygglega: „Þú ert aldrei nema að hvima þig um allar áttir og fælir tóuna; leggstu niður á milli steina og líttu ekki upp fyrr en þú heyrir skotið.“ Hann gjörði sem honum var sagt, lá nokkuð lengi og fór að leiðast, lítur því upp og sér þá hvergi Jón, en sér hvar grágæs er að feta fyrir ofan grenið og tóa er að læðast að henni og muni ætla að veiða hana. Í þessu réttir gæsin frá sér vænginn. Í því heyrir hann skot og tóa lá dauð, en drengur grúfir niður og lætur ekki á bera, en Jón kemur til hans og segir þá: „Nú máttu upp líta, en með forvitni þinni varstu næstum búinn að ónýta fyrir mér, því þú gegnir aldrei.“