Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Gæsarsteinn

Úr Wikiheimild

Einu sinni bar það við á Hallormsstað í Skógum að tóa lagðist á fé þeirra er þar bjuggu og fleiri; var það svo grófur bítur að ei vissu menn dæmi til annars eins, en óvinnandi hvað sem reynt var. Þetta var í þann tíð er Jón Þórðarson, er kallaður var grái, lifði. Hann var sem alkunnugt er hinn mesti fjölkynngismaður, og eru um hann margar sagnir hér eystra og í flestum nefndur „bóndi á Dalhúsum í Eiðaþinghá“, en ekki er getið hvar hann átti heima er þessi saga gjörðist. Nú var hann fenginn til að reyna við tóuna, og fór hann með öðrum manni og héldu þeir sig út og upp frá Hallormsstað skammt frá stórum steini; og eru þeir svo nokkuð lengi að þeir sjá ekki tóuna. Segir þá Jón að sig syfji og leggst fyrir, en biður hinn að vaka og vekja sig ekki þó eitthvað verði til nýlundu; maðurinn lofar því. Virðist honum Jón sofna. En þegar hann er búinn að liggja dálitla stund sér vökumaður að grágæs situr á steininum, en tóa kemur út úr búskunum og er sem henni sé í hug að læðast að gæsinni. Fer nú tóa hægt og hægt þar til hún er komin að steininum, og leggur nú framlappirnar upp á hann og ætlar að hremma gæsina, en hún snerist fljótlega við og setti drítskot í hausinn á tóunni, við hvað henni brá svo að hún datt dauð ofan fyrir steininn, en grágæsin hvarf. Þegar þetta var búið vaknaði Jón og spyr hvurt hann hefði séð nokkuð til ferða tóu, en hinn segir honum allt sem farið hafði. Fóru þeir svo heim með tóuna; en steinninn er enn í dag nefndur Gæsarsteinn. – Endir.