Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Steinunn á Tjörnum

Úr Wikiheimild

Í Fellssókn er bær einn sem heitir á Tjörnum. Þegar Hálfdán var prestur að Felli bjó kona ein að Tjörnum er Steinunn hét; er þess eigi getið hvert hún var ógift eða ekkja þegar þessi saga gjörðist, en fyrir búráðum öllum var hún talin á Tjörnum; Steinunn var hnigin á efra aldur, margfróð og mikilhæf í skapi og lét ógjarnan hlut sinn við hvern sem um var að eiga.

Það var einhverju sinni að Steinunn á Tjörnum átti að lúka Hálfdáni presti dagsverk um heyannir; var þá sumar votsamt og gekk seint heyskapur að Felli; leið svo fram eftir sumri að ekki lét Steinunn vinna presti dagsverkið. Það var einhvern morgun síðla á slætti að kominn er þerrir góður og lætur Hálfdán prestur breiða allt sitt hey, og var það mikið hey, því svo sem ekkert hafði náðst í garð um sumarið; en er leið að hádegi kemur Steinunn á Tjörnum og hittir prest að máli; segist hún komin að vinna honum dagsverkið þó seint sé. Prestur varð fár við og lét sem lítið mundi drátta um verk hennar svo gamallar og nú liðið að miðjum degi; en Steinunn kvað þá nógan tíma að tala um hvernig dagsverkið væri af hendi leyst þegar því væri lokið. Er henni því næst vísað til fólksins á engi og skyldi hún vinna að heyþurrk um daginn. En er leið af nóni tók að draga fyrir sól og gjörast skúralegt; skipar prestur svo fyrir að fólk allt skuli fara að sæta upp heyið og binda jafnótt heim í garð; biður hann hvern að duga nú sem bezt. En er fólk er tekið til verka bannar Steinunn því að binda heyið og segir ekki muni lakara að hlýða sínum ráðum en presti að þessu sinni; þorir fólkið ekki annað en hlýða henni, og er hætt að binda; og er nokkrar sátur eru upp komnar gengur Steinunn að þeim og veifar hrífu sinni yfir sáturnar. Bregður þá svo undarlega við að sáturnar færast á kreik og renna hver eftir annarri heim í garð til prests; því prestur var heima að taka á móti heyinu. Er þar skjótast af að segja að svona gengur það sem eftir er dagsins; jafnótt og hver sáta er fullgjör hverfur hún heim að garði til prests og er allt hey hirt um kveldið. En er Steinunn kemur heim að Felli um kveldið þakkar prestur henni dagsverkið og segist nú sjá það að fleiri sjái ofan með nefinu á sér en hann einn; en svo hafði hann sagt aftur seinna að fullfengið mundi sér hafa orðið að taka á móti heyinu ef hann hefði ekki haft ráð á fleiri vinnumönnum en þeim er Steinunn hefði vitað af.