Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Upp þú kolla og heim í garð

Úr Wikiheimild

Eitt sumar á slætti kom Halla að bæ þar sem verið var að hirða hey. Gekk það seint því mikið hey var úti og var keppzt við að sæta sem mest því regnlegt var. Hafði bóndi ekki mannafla til að láta flytja heyið heim svo fljótt sem þurfti. Þá kemur honum í hug að biðja Höllu að hjálpa sér. Hún sagðist lítið mundi að gera, því hún var þá gömul. Þó gekk hún þangað sem heyið var. Hún hafði í hendi kolluprik (broddlausan staf). Hún gekk að hvurri sátu, sló hana með prikinu og sagði: „Upp þú kolla og heim í garð.“ Sáturnar fuku jafnótt heim í garð og alhirti bóndi áður en regnið kom. Hann launaði Höllu vel og sagði að enginn hefði unnið hjá sér jafnþarft eða jafnmikið dagsverk.