Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Galdrasögur/Vatnsburður kölska

Úr Wikiheimild

Griðkona ein í Odda sem plagaði að bera heim vatn var einn vetur, þá snjór og lausamjöll var mikil, þreytt orðin að kljúfa snjóinn með vatnsskjólurnar.

Einu sinni þegar hún sat við brunninn og álasaði húsbændum sínum fyrir of harða verkaætlun kom til hennar maður einn; sá bauð henni að bera heim fyrir hana vatnið ef hún vildi gefa sjálfa sig í kaupið. Því játaði hún. Maðurinn tók þá til að bera vatnið heldur ótt og títt. Sæmundur kom út og sá hvað um var; hann sagði til mannsins að hann kæmist aldrei með vatnsburðinn því ílátin væri of lítil og fékk honum hrip tvö heldur stór og tók miðrimina úr hverjum botni. Karli varð seint um vatnsburðinn því hripin vóru jafnan tóm þegar hann kom heim til bæjarins frá brunninum og missti hann því griðkonuna.