Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Álfkonurnar í Kálborg

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Maður er nefndur Þórsteinn. Hann átti heima í Bárðardal, á Kálfborgará eða máske Jarlsstöðum; það er fyrir austan fljótið. Hann var hér um átján ára gamall þegar þetta ævintýri gjörðist. Það var vani og verk Þórsteins að sitja fé á sumrum og standa hjá á vetrum upp á Fljótsheiðinni. Þar á heiðinni er klettur eða klöpp sem kölluð er Kálborg; þar nálægt rennur lítil á sem kölluð er Kálborgará og við hana er bærinn kenndur að Kálborgará. Áin rennur í dalverpi sem við hana er kenndur og kallaður Kálborgarárdalur. Þórsteinn var raddmaður og hafði hann oft það sér til skemmtunar er hann sat að fé að kveða og syngja.

Eitthvert skipti var það um vetur að Þórsteinn stóð yfir fé að vanda sínum; þá gerði á hann mikla hríð svo ekki var vært kyrru fyrir að halda. Rak hann þá féð á stað og vildi heim, en fór villur og fann eigi fyr en hann kom að klöppinni Kálborg. Þá þekkti hann sig og tók sér stefnu þaðan og ætlaði heim, en það kom fyrir ekki því að stundu liðinni kom hann að borginni aftur. Hvíldi hann sig þá þar um stund; síðan hélt hann enn á stað og ætlaði að leita heim, en kom að hinni sömu klöpp ennþá. Sá hann þá að ekki var annað sýnna en að berast þar fyrir til þess hríðina birti eða bíða þar dauða síns ella. En er hann hafði setið þar um stund opnaðist klöppin og kom þar út kona öldruð. Hún heilsaði Þórsteini og bauð honum inn að ganga og leiddi hann því næst inn. Var þar fyrir önnur kona ung og fríð og þrjú börn og ekki kemur fleira fólk við söguna en þær tvær. Buðu þær Þorsteini þar að vera og vóru blíðar við hann, einkum hin yngri. Í húsinu var öllu laglega niður skipað og svo var bjart í því sem sól skini, en birtan stóð af hjóli eða hnött einum sem í húsinu var. Rekkjur vóru tvær og vóru þær rauðar að lit. Bók eina sá hann þar og var hún með gullnu eða þó fremur eldlegu letri og las Þórsteinn margt í henni meðan hann dvaldi hjá fyrnefndum konum. En hjá þeim var hann í hálfan eða máske heilan mánuð og þókti þeim gaman að láta hann kveða fyrir sig, og var það ásetningur þeirra mæðgna að Þórsteinn settist að hjá þeim og giftist hinni yngri konunni og bað og bauð móðir hennar hann þess og sókti það með miklu kappi. En þó að honum þækti þar allgott að vera og félli stúlkan vel í geð var hann með öllu móti ófáanlegur til að setjast að hjá þeim. En þegar sú gamla konan sá að ekki var til neins framar um það að tefla vildi hún gefa honum vín í staupi og var það rautt á lit, svo sem aðra skilnaðarskál, en Þorsteinn þáði það ekki. Reiddist hún þá úr hófi og heitaðist mjög við hann og lagði á hann margt illt, fyrst að hann skyldi aldrei geta haft einlæga ást á konu og er mælt það hafi rætzt. Annað lagði hún á hann að skyldi aldrei geta komið tungunni fram fyrir tannirnar eða sungið né kveðið framar, enda gat hann það ekki meðan hann lifði. Einnin lagði hún á hann að skyldi verða þjófur. Líka sló hún hann eða særði á brjóstinu. En jafnótt og hin gamla kella lagði á hann greip sú yngri málinu fyrir og bætti um allt svo sem hún kunni og græddi hann á brjóstinu; þó gat hún ei gert hann jafngóðan svo alla ævi hans var brjóstið kalt og dofið, því hún sagði að móðir sín væri svo andheit að hún gæti ekki tekið álögurnar af að öllu þó hún gjarnan vildi, því henni var orðinn hann mjög kær. Síðan fylgdi sú hin yngri honum út og minntist við hann, og mæltu til vináttu með sér og það lagði hún ríkt á við hann að segja ekki frá þessum atburði fyr en tuttugu og átta ár væri liðin. Fór nú Þórsteinn heim til sín, en engum sagði hann hvar hann hefði dvalið þennan tíma. En að tuttugu og átta árum liðnum orkti Þórsteinn kvæði í hverju hann sagði frá öllum þessum atburði glögglegar, en það kvæði mun nú vera undir lok liðið. Í kvæðinu er þetta:

Bók þar var með blöðum ný
björt sem elda funi;
las eg margt af letri því
þó lítið eftir muni.

Og þetta í niðurlagi:

Síðan hef ég þá silkihrund
séð skjaldnar en vildi;
hennar vegleg ævistund
er í bezta gildi.

Kona sem er fjórða frá Þórsteini var fyrir fáum árum á Brenniási; sá bær er austur frá Kálborg. En á þeim tíma vildi svo til að stúlka þar af næsta bæ var að taka fjallagrös á Kálborgarárdal. Var þá eitthvert sinn að hana dreymir að kvenmaður kemur að henni og fer að tala við hana. Þykist hin sem hét Kristín þá spyrja hana hvar hún eigi heima, en hún segist eiga heima í Kálborg og vera þar við grasatekju á dalnum, og svo fór hún að segja Kristínu hvað sér félli illa að sjá til smalans sem hún nefndi – hann var á sama bæ og Kristín – þegar hann væri að fara þar um dalinn, hvað hann bæði riði gapalega og færi illa með hesta og sauðfé. Hún sagði sér þækti svo illt að sjá þegar illa væri farið með skepnurnar. — Svo sagði hún Kristínu líka að hún vildi einhvern tíma geta gjört stúlkunni fyrnefndu á Brenniási eitthvað gott því það væri frændstúlka sín, og því vildi hún, ef gæti, gjöra henni eitthvað til þægðar. Ekki er getið fleiri orða þeirra.