Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Bergþór í Bláfelli

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Bergþór í Bláfelli

Bergþór hét maður; hann bjó í helli einum í Bláfelli; kona hans hét Hrefna. Faðir Bergþórs hét Þórólfur og bjó í Þórólfsfelli – að öðru nafni Kálfstindum – en móðir Bergþórs hét Hlaðgerður og bjó í Hlöðkufelli. Þá var landið í heiðni er þessi saga gjörðist og á dögum Hítar er Hítardalur er við kenndur. Bergþór var í boði hennar er hún bauð öllum tröllum af landinu til veizlu í Hundahellir. Eftir máltíð bauð Hít tröllunum að gjöra sér skemmtun; var hún innifalin í aflraunum; þótti Bergþór jafnsterkastur.[1]

Bergþór gjörði mönnum ekki mein ef ekki var gjört á hluta hans, en forspár þótti hann og margvís. Eftir að landið kristnaðist þótti Hrefnu óskemmtilegt í Bláfelli því hún sá þaðan yfir byggðina kristna. Svo var henni þetta móti skapi að hún vildi flytja sig norður yfir Hvítá. Bergþór kvað sig það litlu skipta og sagðist kyrr mundi vera í helli sínum. Hrefnu skapsmunir breyttust ei við þetta. Flytur hún sig því norður yfir ána og byggir skála undir fjalli einu, og heitir það síðan Hrefnubúðir. Og eftir það hittust þau Bergþór í silungsveiðum við Hvítárvatn.

Oft fór Bergþór til mjölkaupa fram á Eyrarbakka, helzt á vetrum þegar vötn voru lögð; bar hann jafnan tvær mjöltunnur. Eitt sinn gengur Bergþór með byrði sína upp byggðina, en þegar hann kemur upp undir túnið á Bergsstöðum í Biskupstungum hittir hann bónda og biður hann gefa sér að drekka. Bergþór kveðst bíða meðan bóndi færi heim; leggur hann þá af sér byrðina hjá berginu sem bærinn dregur nafn af og klappar holu í klett einn með stafsbroddi sínum. Bóndi kemur aftur með drukkinn og færir Bergþóri. Þegar Bergþór hefur drukkið þakkar hann bónda fyrir og segir að brúka skuli hann ker[2] þetta til að geyma í sýru og getur þess um leið að ekki muni vatn blanast við hana i kerinu og ekki muni hún heldur frjósa í því, en hundraðstap muni það verða í búi bónda, vilji hann ekki brúka. Að þessu mæltu kveður Bergþór bónda og fer leiðar sinnar.

Eitt sinn kemur Bergþór að máli við bóndann í Haukadal. Er hann þá hniginn á efra aldur og segist vilja kjósa sér legstað þar sem heyrist klukknahljóð og árniður og biður hann því flytja sig dauðan að Haukadal, en fyrir það ómak eigi hann að eiga það sem sé í katlinum hjá rúmi sínu; en nær hann sé dauður skuli bóndi hafa til marks að þá muni göngustafur sinn vera við bæjardyrnar í Haukadal. Bóndi lofar þessu og skilja þeir svo.

Nú líður langur tími að ekki er talað um Bergþór þar til einn morgun er fólk kemur ofan í Haukadal; er þá ákaflega mikill göngustafur við bæjardyrnar. Er þá haft orð á þessu við bónda; hann talar fátt um, en gengur út og sér að það er stafur Bergþórs. Lætur hann þegar smíða líkkistu og býst til ferðar norður í Bláfell við nokkra menn. Er ekki sagt af ferðum þeirra fyrr en þeir koma norður í Bergþórshellir; sjá þeir Bergþór þar dauðan í rúmi sinu. Þeir láta hann í kistuna og þykja hann furðu léttur eftir stærðinni. Nú sér bóndi að stór ketill er við rúmið og fer að litast um hvað í muni vera og sér ekki í honum annað en viðarlauf og þykir Bergþór hafa gabbað sig og hirðir ekki. En einn af fylgdarmönnum fyllir af þessu vettlinga sína. Siðan fara þeir með lík Bergþórs úr hellinum niður fjallið. En þegar niðrúr fjallinu var komið fer maðurinn að líta í vettlinga sína; eru það þá peningar. Snéri bóndi og menn hans aftur og vildu sækja ketilinn, en fundu ekki hellirinn, og hefur hann síðan aldri fundizt. Urðu þeir því að snúa aftur við svo búið, en fluttu líki Bergþórs niður að Haukadal; lét bóndi jarða það fyrir norðan kirkjugarðinn; heitir þar síðan Bergþórsleiði. Hringurinn úr stafnum kvað vera þar í kirkjuhurðinni, en broddurinn lengi verið þar brúkaður fyrir kirkjujárn; og endar hér sagan af Bergþóri í Bláfelli.


  1. Bergþórs er þó ekki getið í boði Hítar í Bárðar sögu 13. kap.
  2. Kerið hef ég séð; það mun taka á þriðju tunnu. Vatn var mikið ofan á sýrunni sem feiti ofan á vatni væri og sagt var mér að ekki frysi nema vatnið sem ofan á syndir. – E. P.