Bárðar saga Snæfellsáss/13

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)

Í þann tíma var Hít tröllkona uppi og byggði Hundahelli í þeim dal er síðan var kallaður Hítardalur.

Hít setti þá jólaveislu sterka. Hún bauð þar fyrstum Bárði Snæfellsás og fór Gestur með honum son hans og Þorkell skinnvefja. Þangað var og boðið Guðrúnu knappekkju og Kálfi syni hennar. Þangað var og boðið Surt af Hellisfitjum og Jóru úr Jórukleif. Sá þurs var þangað boðinn er Kolbjörn hét. Hann byggði þann helli er stendur í Breiðdalsbotnum en það er í framanverðum Hrútafjarðardal þar sem grynnir dalinn vestur undir Sléttafelli. Kolbirni fylgdu þeir Gapi og Gljúfra-Geir, er heima áttu á Háva-Gnúpi í Gnúpsdal, Glámur og Ámur úr Miðfjarðarnesbjörgum. Þar var og Guðlaugur úr Guðlaugshöfða.

Svo var sætum skipað í Hundahelli að innar um þvert á miðjan bekk sat Guðrún knappekkja. Á aðra hönd henni sat Jóra úr Jórukleif Egilsdóttir en á aðra hönd henni sat Helga Bárðadóttir en eigi voru þá fleiri. En Hít gekk um beina. Í öndugi sat Bárður Sæfellsás en utar frá Guðlaugur úr Guðlaugshöfða en innar frá Gestur Bárðarson, þá Kálfur og Þorkell skinnvefja. Gegnt Bárði sat Surtur af Fitjum en innar frá honum sat Kolbjörn úr Breiðadal, þá Glámur og Ámur en utar í frá Geir og Gapi.

Voru þá borð upp tekin og matur á borinn heldur stórkostlegur.

Drykkja var þar mjög óstjórnleg svo allir urðu þar ginntir.

En er máltíð var úti spurðu þursar og Hít hvað Bárður vildi til gamans hafa, kváðu hann þar skyldu híbýlum ráða. Bárður bað þá fara til skinnleiks.

Stóðu þeir þá upp Bárður og Surtur, Kolbjörn, Guðlaugur og Gljúfra - Geir og höfðu hornaskinnleik. Var þá ekki svo lítið um þá. Þó var það auðséð að Bárður var sterkastur þó hann væri gamall. Bjarnfeld einn stóran höfðu þeir fyrir skinn og vöfðu hann saman og köstuðu honum á milli sín fjórir en einn var úti og skyldi sá ná. Ekki var gott að vera fyrir hrundningum þeirra. Flestir stóðu upp í bekkjum nema Gestur. Hann sat kyrr í rúmi sínu.

En þá Kolbjörn var úti ætlaði hann að ná skinni fyrir Bárði og hljóp að heldur snarlega. En er Gestur sá það skaut hann fætinum fyrir Kolbjörn svo þursinn hraut þegar út á bergið svo hart að brotnaði í honum nefið. Féll þá blóð um hann allan. Varð þá upphlaup og hruðningar heldur sterklegar. Vildi Kolbjörn hefna sín á Gesti.

Bárður segir að það skal öngum duga að gera nokkuð ómak í herbergjum Hítar vinkonu sinnar „þar sem hún hefir boðið oss með kærleikum.“

Varð nú svo að vera sem Bárður vildi en þó undi Kolbjörn illa við er hann gat eigi hefnt sín. Fór nú hver til sín heimkynnis. Sýndist það enn sem oftar að allir þursar voru við Bárð hræddir. Að skilnaði er Gestur fór í burtu gaf Hít honum hund er Snati hét. Hann var grár að lit. Hin mesta fylgd var í rakkanum sakir afls og speki. Hún segir að hann væri betri til vígs en fjórir karlar. Síðan fór Bárður heim og höfðust þeir Gestur þá heima við um tíma.