Bárðar saga Snæfellsáss/12

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)

Sá maður bjó að Lækjamóti í Víðidal er Þorgils hét, ýmist kallaður Þorgils gjallandi eða spaki. Hans son var Þórarinn spaki, fóstri Víga-Barða.

Þá bjó Auðunn skökull á Auðunarstöðum og var þá gamall og hafði verið hinn mesti maður og mikill garpur.

Þorbjörn bóndi í Tungu hafði mörg úrræði til peninga. Hann hafði selför fram í Hrútafjarðardali og lét þar vinna öndverð sumur. Þórdís húsfreyja var jafnan í seli. Þá var Þórður sex vetra en Þorvaldur fimm.

Eitt kveld var Þórdís við læk og þvó hár sitt. Þá koma Helga Bárðadóttir þar með Gest og var hann þá tólf vetra.

Hún mælti: „Þar er sonur þinn Þórdís og væri eigi víst að hann hefði meira vaxið þó hann hefði hjá þér verið.“

Þá spurði Þórdís hvað konu hún væri.

Hún segist Helga heita og vera dóttir Bárðar Snæfellsáss „en víða höfum við Gestur verðið því að heimili mitt er eigi á einum stað. Vil eg það og segja þér að við Gestur erum systkin og er Bárður faðir okkar beggja.“

Þórdís segir: „Það er ólíklegt.“

Ekki dvaldist hún þar og fór þegar á burt en Gestur var eftir hjá móður sinni og var hann bæði mikill of fríður því að hann var svo stór þegar sem þeir menn er á tvítugsaldri voru.

Gestur var í Tungu hinn næsta vetur og þá sótti Bárður faðir hans hann og flutti hann heim með sér í Snæfellsjökul. Fært hafði Bárður Þórdísi vænan kvenmannsbúning. Gestur óx upp með föður sínum og kenndi hann honum allar þær listir sem hann kunni. Gerðist Gestur svo sterkur að engi var líki hans þeirra er þá voru uppi.