Bárðar saga Snæfellsáss/14

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
villa í sniði: ekki fjarlægja auðar breytur (sjá nánar í skjölun sniðs.)

Gustur hét sauðamaður Þorbjarnar bónda í Tungu. Hann geymdi fjár vetur og sumar. Hann sýndi bónda hina mestu dyggð í öllum hlutum. Gustur var frækinn og fóthvatur en ekki sterkur.

Tíu vetrum síðar en Gestur fór úr Tungu bar það til tíðinda að allt sauðfé hvarf í brott það Þorbjörn bóndi átti í geymslu Gusts sauðamanns og leitaði þrjá daga í samt svo hann fann öngan sauð og kom svo heim að kveldi og sagðist mundu upp gefa leitina fjárins „því að eg hefi þessa daga leitað í allar áttir og þær leitir er mér þykir nokkur líkindi vera að fénaður megi verið hafa.“

Bóndi gaf honum stór ávít og kvað féið nærri liggja mundu. Gustur kvað þó eigi lengur leita mundu.

Um morguninn reið Þorbjörn til Reykja í Miðfjörð að hitta Skeggja mág sinn. Skeggi tók allvel við honum og fréttir tíðinda.

Þorbjörn segist eigi segja tíðindi „utan horfið er mér sauðfé mitt allt í burt og hefir leitað verið þrjá daga í samt og finnst eigi. Er eg því hér kominn að eg vildi þiggja af þér heil ráð, hversu með skal fara, og að þú segir mér hvað þér þykir líklegast að af sé orðið því að engi líkindi eru á um hvarf fjár þessa.“

„Sjá þykist eg,“ segir Skeggi, „hvað af fé þínu mun orðið. Það hafa tröll tekið einhver og hafa huldu yfir. Mun það ekki öðrum vinnast en sonum þínum að ná því aftur því að til þeirra mun leikur ger. Má vera að þeir þykist sín eiga í að hefna og hafi orðið halloka fyrir einhverjum þeirra náungi þó hann geti eigi á þeim hefnt og er það mitt ráð að þeir bræður leiti.“

Reið Þorbjörn heim aftur við svo búið og talar við sonu sína að þeir leiti fjárins.

Þórður segir: „Skeggi frændi minn mun þetta til hafa lagt en þó þykir mér sem sá muni í tröllahendur sendur. En þó má vera að Skeggi frændi minn hafi nokkuð í séð að okkur aukist framkvæmd við og skulum við fara að vísu.“

Og einn morgun snemma bjuggust þeir til ferðar bræður fram á heiðar og nær miðjum degi höfðu þeir ekki til fundið en voru þó komnir langt fram.

Þá mælti Þórður: „Nú skulum við skilja og skaltu ganga upp undir Snæfell og kanna allar Hvammsártungur og ganga svo hið efra aftur um fjöllin og svo til Svínaskarðs og Haukadalsskarðs og þaðan heim. En eg ætla að kanna Hrútafjarðardal allan fram í botn og ef eg kem eigi heim í kveld þá heilsa föður mínum og móður og vinum og frændum því að það er þá líkast að mér verði eigi afturkomu auðið.“

Síðan skildu þeir bræður. Gekk Þorvaldur allan greindan veg og kom heim um kveldið og hafði ekki fundið af fénu.

En frá Þórði er það að segja síðan þeir bræður skildu að hann gengur fram á dalinn og ætlar hann að kanna hann á enda. Og er hann hefir gengið um hríð gerir á svarta þoku svo mikla að hann sá hvergi frá sér.

Og er minnst von er varð hann var við að maður var nær honum í þokunni. Þórður stefndi þangað og er hann nálgast sér hann að þetta var kona ein. Þórði sýndist hún fríð og vel á sig komin og ekki stærri en að meðallagi. En er hann hugðist mundu ná henni hvarf hún honum svo skjótt að hann gat eigi auga á fest hvað af henni varð í þokunni.

Eftir það reikar Þórður eftir dalnum og ekki lengi áður hann heyrir í dimmunni dyn mikinn og vonum bráðara sér hann mann ef svo skal kalla. Þessi maður var mikill vexti og mjög stórskorinn. Bjúgur var hans hryggur og boginn í knjám. Ásjónu hafði hann ljóta og leiðinlega svo hann þóttist önga slíka séð hafa, nef hans brotið í þrem stöðum og voru á því stórir hnútar. Sýndist það af því þríbogið sem horn á gömlum hrútum. Hann hafði stóra járnstöng í hendi.

Og er þeir mættust heilsaði þessi dólgur á Þórð með nafni. Þórður tók kveðju hans og spurði í mót hvert nafn hans væri. Hann kveðst Kolbjörn heita og ráða fyrir dal þessum. Þórður spyr hvort hann hefði ekki orðið var við fé föður síns.

Kolbjörn segir: „Ekki er því að leyna að eg veld fjárhvarfi föður þíns. Er nú svo til borið sem eg mundi kjósa að hann mundi að þér víkja um leitina eða hefir þú nokkuð fundið manna síðan þú fórst heiman annað en mig?“

Þórður kallaðist víst séð hafa eina konu en talað ekki við hana „því að hún hvarf mér svo skjótt.“

„Það mun verið hafa,“ segir Kolbjörn, „Solrún dóttir mín. Er það nú boð mitt við þig að þú kjós hvort vilt heldur missa fjár föður þíns og fá aftur öngan sauð, því að mér líkar ekki allvel við frændur þína suma, eða hitt ellegar að við semjum til og gifti eg þér Solrúnu dóttur mína. Mun þá og laust féið fyrir þér.“

Þórður segir: „Það mun frændum mínum þykja skjótkeypt minna vegna en svo að einu leist mér á konu þessa að því mundi ekki mjög misráðið þó hennar fengi röskur maður.“

„Þessa ráðahags skyldi ekki öllum kostur,“ segir Kolbjörn, „en ekki vildi eg fyrirmuna dóttur minni góðs gjaforðs.“

Fer það fram að Kolbjörn fastnar Þórði dóttur sína Solrúnu með þeim skilmála að á hálfsmánaðar fresti skal hann sækja brullaupið heim til Kolbjarnar. Sagði hann heimili sitt vera í helli þeim er í Brattagili er, bað hann hafa með sér svo marga menn sem hann vildi, fráteknum Miðfjarðar- Skeggja og Eið syni hans, Þórði gelli og Þorgilsi spaka og Þorbirni öxnamegin og síst Auðuni skökli úr Víðidal „ekki vil eg að þú bjóðir þursum né bergbúum og einna síst Bárði Snæfellsás og hans fylgjurum.“

Þessu játar Þórður og skildu við svo búið. Víkur Kolbjörn þá í veg með Þórði. Sjá þeir þá hvar féið liggur í einum dyn allt í dalverpi einu. Rekur Þórður það þá heim með sér í Tungu. Allir menn fagna honum vel og frétta hann tíðinda en hann segir slík sem voru og orðið höfðu í hans ferð. Þorbirni bónda fannst mikið um þetta og sagði líklegt að hann mundi heillaður af tröllum.

Þórður kvað mega takast betur „og segir mér ekki illa hugur um þessa ráðabreytni.“

„Hitt þykir mér ráð frændi,“ segir Þorbjörn, „að þú sækir ekki þetta brullaup og segir öngum manni frá og látir sem ekki hafi í orðið.“

Þórður gaf sér þá fátt um. Leið nú fram til ánefndrar stefnu.