Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Gissur á Botnum

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1862) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Gissur á Botnum

Hin efsta sveit og yzta í Rangárvallasýslu heitir Land eða Landsveit. Í fornöld hefur þar verið fögur sveit og vel til byggðar fallið, en nú er hún orðin eydd mjög bæði sökum eldgangs úr Heklu sem er rétt í austur af Landinu og skilur ekki annað en Rangá hin ytri og hálsar nokkrir sem Næfurholt stóð í er um langan tíma hefur verið efstur bær austan Rangár eða á Rangárvöllum, en sá bær eyddist í síðasta Heklugosinu 1845 til ‘46. Rangá ytri rennur rétt með hálsi þeim er Næfurholt stendur í, en ekki alllangt frá Næfurholti er fell eitt er Bjólfell heitir; lengra upp með Rangá, en æðikipp fyrir ofan alla byggð bæði á Rangárvöllum og Landi, gengur gil mikið í austurlandnorður inn í hálsa þessa; er það lukt klettum að ofan og umhverfis á báðar hliðar, en opnast gegn útnorðri og vestri ofan að Rangá; gil þetta heitir Tröllkonugil. Efst á Landinu fyrir ofan Landskóga er mjög blásinn jarðvegur og sandrunninn; það svæði heitir Kjallakatungur og liggja þær langt inn á afrétt milli Þjórsár að vestan og Rangár að austan allt inn fyrir Rangárbotna, og eru tungur þessar eyðisandar að kalla þegar inn eftir dregur og ekki ýkja-breiðar þegar milli ánna þar sem Búrfell er fyrir vestan Þjórsá gegnt Kallakatungum.

Í fyrndinni bjuggu tröllkonur tvær, önnur í Bjólfelli, en hin í Búrfelli; þær voru systur og féll vel á með þeim; fór því tröllkonan úr Búrfelli oft að hitta systur sína austur yfir Þjórsá og Rangá austur í Bjólfell og eins má ætla að systir hennar úr Bjólfelli hafi gjört þótt þess sé ekki getið. Búrfell er mjög klettótt og vegghamrar í öllum eggjum þess. Austan undir því miðju hér um bil eru klappir tvær sín hvorumegin Þjórsár ekki allháar og upp úr ánni milli klappanna standa tveir klettar ámóta háir og klappirnar svo að áin fellur þar í þrem kvíslum. Þessar stillur er sagt að tröllkonan úr Búrfelli hafi sett í Þjórsá svo að hún þyrfti ekki að væta sig í fæturna er hún fór að finna systur sína og stokkið þar yfir ána í þremur hlaupum. Heita nú klettar þessir síðan Tröllkonuhlaup. Eftir endilöngum Kjallakatungum liggur vegur allra þeirra sem fara norður á Landmanna- og Holtamannaafrétti hvort sem þeir fara í fjárleitir eða til fiskifanga eða álftatekju og rótagraftar á afréttum þessum, og hafa þær ferðir mjög tíðkazt að fornu og nýju á sumrum; því að bæði eru á Landmannaafrétti einhver beztu veiðivötn hér á landi þar sem Fiskivötn eru og álftatekja mikil við þau og hvannstóð víða um afréttina.

Í Landsveit er bær einn heldur framarlega er Botnar heita eða þó heldur almennt nefndur Lækjarbotnar; þar bjó í þann tíma er þessi saga gjörðist bóndi sá er Gissur hét. Einhvern tíma hafði hann farið um sumar inn á afrétti til veiða og hafði hest í togi. Þegar hann þóttist hafa aflað nóg upp á hestinn tekur hann sig upp að innan og heldur heimleiðis. Ekki segir neitt af ferðum hans fyrr en hann kemur fram á Kjallakatungur gegnt Tröllkonuhlaupi. Heyrir hann þá að kallað var í Búrfelli með ógurlegri rödd:

„Systir, ljáðu mér pott.“

Er þá gegnt aftur jafnógurlega austur í Bjólfelli og sagt:

„Hvað vilt þú með hann?“

Þá segir tröllkonan í Búrfelli:

„Sjóða í honum mann.“

Þá spyr hin í Bjólfelli:

„Hver er hann?“

Hin svarar:

„Gissur á Botnum,
Gissur á Lækjarbotnum.“

Í því verður Gissuri bónda litið upp í Búrfell og sér hann þá að tröllkonan ryðst ofan eftir hlíðinni og stefnir beint ofan að Tröllkonuhlaupi. Þykist hann þá sjá að hún muni ætla að gjöra alvöru úr hjali sínu og ekki muni seinna vænna fjörvi að forða. Sleppir þá Gissur taumnum á klyfjahestinum, en slær upp á þann er hann reið er var afbragðs léttleikaskepna. Gissur gjörir hvorki að líta aftur né lina á hestinum og reið allt hvað hann mátti komast, en það þykist hann þó skilja að saman muni draga með tröllkonunni því æ heyrði hann betur og betur andköf hennar á hlaupinu. Hann heldur beinustu leið fram þvert Land og tröllkonan á eftir. En það vildi Gissuri til að Klofamenn sáu heiman að frá sér ferð hans og tröllkonunnar er þau komu á Merkurheiði. Brugðu þeir þá skjótt við, því þau bar brátt að, og hringdu öllum kirkjuklukkunum í Klofa er Gissur slapp inn fyrir túngarðinn. Þegar tröllkonan missti af Gissuri kastaði hún exi sinni eftir honum svo að þegar hann kom heim á hlað féll hesturinn dauður niður undir honum, en öxin var sokkin upp að auga í lend hestsins. Þakkaði þá Gissur guði fagurlega lausn sína. En það er frá tröllkonunni að segja að henni varð svo bilt við er hún heyrði klukknahljóðið að hún ærðist og tók aftur á rás af öllum mætti; sáu menn til ferða hennar af ýmsum bæjum á Landinu og stefndi hún miklu austar en til átthaga sinna því hún hélt skáhallt austur og upp að sjá á Tröllkonugil og þar fannst hún sprungin fám dögum síðar; dregur gilið af því nafn og heitir síðan Tröllkonugil.

Aldrei varð þess vart að systir hennar í Bjólfelli grandaði byggðarmönnum, enda kemur hún lítt við sögur og vita menn ógjörla hvað henni leið eftir þetta. Nokkrir ætla að hún muni hafa flutt byggð sína í Tröllkonugil úr Bjólfelli af því hún muni hafa þótzt búa af nærri mannabyggðum. Telja menn það til sanninda hér um að einu sinni fóru tveir menn sem oftar í eftirleit af Landinu inn á afrétt. Fengu þeir veður illt og sneru við það aftur, að þeim þótti ótækt lengra að leita. Fengu þeir þá þreifandi blindösku norðanbyl. Kom þá svo fyrir þeim að þeir villtust og vissu ekkert hvar þeir voru staddir. Héldu þeir þó eigi að síður áfram undan bylnum og höfðu það eitt sér til leiðbeiningar. Þannig fóru þeir langa hríð, þeir gizkuðu á allt að sólarhring, svo að þeir sáu ekki þverfet frá fótum sér. Enda vissu þeir ekki fyrri til en þeir duttu báðir senn fram af hömrum nokkrum og komu niður á mjúkan skafl. Þar lágu þeir um stund því að bæði voru þeir dasaðir af ganginum og þrekaðir af lamviðrinu og nokkuð mók á þeim eftir fallið. Þegar af þeim bráði aftur töluðust þeir við hvar þeir mundu komnir vera og gátu sér til að það gæti ekki annað verið en þeir væru komnir í Tröllkonugil og að þeir hefðu dottið fram af norðurbarmi þess; þeir hresstu nú af sér eins og þeir gátu og reikuðu eftir fönninni um hríð; því þar var skjól nóg, en ofanbylur talsverður og kóf, en öðru hvoru sáu þeir höggva fyrir í klettunum í gilbarminum.

Þeir tóku nú það ráð að leita sér að einhverju afdrepi ef verða mætti þar sem þeir gæti matazt. Gengu þeir þá inn eftir gilinu og á þeirri leið virtist þeim eins og þeir sæju ljósglampa bregða fyrir í kófinu eins og eldur logaði á skíðum og þóttust finna lykt sem af brenndum skógarviði. Síðan hvarf glampinn þeim með öllu; minnkaði kófið eftir því sem þeir komu innar í gilið. Gengu þeir þá þangað til þeir komu að garði einum allmiklum; hann var hlaðinn af ákaflega stórum steinum; þar var fjúklítið því hamrabrúnir gilsins luktust þar yfir höfði þeirra og voru þeir þá eins og inn í skúta nokkrum. Þar leystu þeir upp malpoka sína og mötuðust eins og þeir gátu bezt aðhafzt. Síðan komu þeir fyrir mat sínum aftur og ætluðu að þreyja þarna til morguns og ganga um gólf til að halda á sér hita. Þá segir annar: „Það vildi ég að ég ætti nú svo heitan graut sem ég get etið og nóg og gott út á.“ Í því hann sleppti orðinu var sett full grautarausa fram á grjótgarðinn og rjómi út á; þar fylgdu og með tveir hornspænir. Mennirnir tóku ausuna og gjörðu sér gott af því sem í henni var og létu hana svo upp á garðinn aftur. Eftir þetta hlýnaði þeim svo í hamsi að þeir fóru að gjöra að gamni sínu hver við annan og tala um hvað þeir ættu að hafa sér til skemmtunar um nóttina svo að þeir sofnuðu ekki. Kom þeim þá ásamt um að annar þeirra er var góður kvæðamaður skyldi skemmta með kveðskap nokkrum, en hann lézt ekki vita hvað kveða skyldi. Heyrðu þeir þá að kallað var innarlega úr hellinum með dimmri rödd og tröllalegri: „Fínar eru Andrarímur ef þær eru vel kveðnar.“ Tók þá kvæðamaðurinn upphafið á þeim og kvað alla nóttina því hann kunni þær. En það stóðst á endum að hann lauk rímunum og dagur ljómaði enda var þá komið gott veður og rifahjarn yfir allt. Héldu svo eftirleitarmenn heim og sögðu víða frá þessari sögu og var það síðan trú að tröllkonan sem fyrr var í Bjólfelli mundi hafa gefið þeim grautinn.