Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Missögn um trölla-Láfa

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni fóru menn nokkrir úr Múlasýslu á grasafjall. Ein þeirra hét Ólafur; hann var frískleikamaður og á bezta aldri. Í einni göngunni fór hann nokkuð frá fólkinu. Koma þá að honum skessur tvær. Þær tóku hann og höfðu heim með sér. Létu þær Ólaf sofa á milli sín og höfðu sína pípuna hvor og blésu í eyrun á honum. Með þessu ætluðu þær að trylla Ólaf, en þeim tókst það ekki. Ólafur undi nú illa hag sínum og vildi burtu komast. Lézt hann þá sýkjast og hætti að neyta svefns og matar. Þær spurðu hvert hann haldi að nokkur ráð séu til að hressa hann því þær vildu ekki missa Ólaf. Ólafur segir að ef hann fengi níu ára gamlan hákarl og þriggja ára gamalt fornskyr muni sér batna. Skessurnar fara þá og fer önnur norður í land að sækja skyrið, en hin vestur undir Jökul að sækja hákarlinn. En er þær voru farnar rís Ólafur upp og hleypur til byggða. Kemur hann þá að kirkjustað einum á Austfjörðum. En rétt í því að hann hljóp heim völlinn kemur önnur skessan á eftir honum og kallar: „Stattu við, Láfi, Láfi, hérna er hákarlinn, Láfi.“ Komst hann þá til kirkjunnar, tók í klukkurnar og hringdi af alefli. Settist þá skessan á kirkjugarðinn og hrundi hann því kerla settist fast niður. Þá segir hún við garðinn: „Svei þér, skítur, og stattu aldri!“ Þykir það hafa rætzt á garðinum.