Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Goðfræðisögur/Piltur á glugga á álfabæ

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1862)
Piltur á glugga á álfabæ

Sami piltur[1] þá hann var smali á Gölti í Súgandafirði sofnaði hann á einum hól þá hann var hjá kindunum. Þá hann var sofnaður þótti hönum að sagt vera inn í hólnum: „Farðu í burtu af glugganum so ég sjái til; þú getur annarstaðar verið so þú skyggir ekki á mig.“ Hann þóttist segja: „Ei veit ég til að ég skyggi á þig né aðra.“ Í þessu bili þótti hönum að stúlka ungleg kæmi út úr hólnum til sín og segja: „Stríddu ekki hönum föður mínum; þú hefur ekki gott af því að fara ekki í burt af glugganum.“ Hann sagðist þá hafa viljað velta sér í svefninum burtu úr þeim stað er hann á lá, en þá hefði hún sagt: „Ei skaltu gjöra það strax; ég skal kenna þér eitt vers áður en þú ferð í burtu.“ Hann þóttist segja að hann gæti ei lært það. Hún sagði: „Jú, þú getur víst lært það.“ Hún mælir þá fram versið sem eftir fylgir:

Himneski friðarfurstinn hæsti,
frelsarinn sálna útvaldra,
gef ég þig lofi í göfgum stærstri
greitt meðan lifi um aldirnar;
en þegar lífið endist mitt,
ó, guð, tak mig í ríkið þitt.

En í því hún endaði versið vaknaði hann og sá hana ganga frá sér inn í hólinn; en hann stóð upp og kunni versið, gekk so þaðan og svaf ei oftar á þeim hól.

  1. Þ. e. Guðmundur sem getið er um í Flutningur álfa og helgihald