Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Áformið þó illt sé

Úr Wikiheimild

Í slæmu veðri kom kerling ein til kirkju sinnar og er hún kemur á staðinn fer hún inn í bæjardyrnar og hittir þar prest sinn og heilsar honum. Prestur tekur kveðju kerlingar og undrar hann að hún skyldi koma í svo slæmu veðri og segir: „Þú átt víst eitthvert brýnt erindi að þú skyldir koma núna.“ „Já,“ segir kerling, „ég frétti að hérna væri nýborin kýr og hefði átt skrýtilega litan kálf og langaði mig til að sjá hann áður en hann væri skorinn.“ „Áttirðu ekki annað erindi?“ mælti prestur. „Ónei,“ segir kerling, „ekki sem ég get talið.“ „Þú hefur máske ætlað að ganga til altaris?“ mælti prestur. „Ójá, það var nú áformið þó illt sé,“ mælti kerling.