Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Ó, þó ég hefði þúsund munna

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Þegar Sigurður prestur Grímsson kom að Þönglabakka[1] höfðu bændur þar enn ekki þýðst messusöngsbókina í kirkjunni og héldu grallarasöng sínum óbreyttum. Presti líkaði það ekki og mælti fram með bókinni við þá og létu þeir að orðum hans og sungu með sálma úr bókinni. Fór svo nokkra messudaga að ekkert bar til tíðinda. En einu sinni lét prestur þá syngja sálminn: „Ó, þó ég hefði þúsund munna,“ – en á þessu orði hneyksluðust þeir og mæltu síðan að þó þeir hefðu ekki nema einn munninn yrði þeim fullerfitt að reyta í hann, en hvað þá væru þeir þúsund.


  1. Sigurður Grímsson (1783-1852) var prestur á Þönglabakka 1820-1830.