Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Öxneyjarbræður og kaupmaður

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Öxneyjarbræður og kaupmaður

Öxneyingar komu eitt sinn í kaupstað og hittu þar danskan kaupmann. Þegar þeir sjá hann ræða þeir um að þeir skuli heilsa honum; þeir gjöra það. Hann tekur kveðju þeirra og segir: „Tak.“ „Hann segir tak,“ mæltu þeir; „hver skrattinn er það? Við skulum heilsa honum aftur og vita hvað hann segir þá.“ Þeir gjöra það, en hann segir sem fyrri: „Tak.“ „Takk segir hann enn,“ mæltu þeir, „heilsum honum oftar.“ Heilsa þeir honum svo lengi að honum tók að leiðast það og blótar þeim fyrir gikksháttinn. Að sönnu skildu þeir eigi hvað hann mælti, en vænt þótti þeim um það og sögðu hvor við annan: „Á svei, þar gátum við komið honum af takkinu.“

Eitt sinn ræddu þeir bræður um hvort þeir mundu ekki geta flogið eins og svartbakurinn og urðu á eitt sáttir um að þeir mundu geta það. „Við þurfum ekki annað,“ mæltu þeir, „en leggjast á grúfu fram á klettsnös, hengja höfuðið fram af, baða út höndunum og segja: ,Gagg, gagg.'“