Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Út á, út á

Úr Wikiheimild

Það voru einu sinni kall og kelling á bæ. Einu sinni fór nú kelling í kaupstað fyrir kallinn sinn og tók í búðinni stóran mjölsekk. Á leiðinni var móða. Þegar kelling á heimleið kemur aftur að móðunni þá gefur hún þar nú staðar og áir. En þegar hún er búin að því og ætlar yfir móðuna þá heyrist kellingu að vatnið í henni segja: „Út á, út á! Út á, út á!“ „A,“ segir kelling; „hvað, segir hún ,út á?' Já, ,út á' segir hún. Á ég að fara að gefa þér út á? Nei, það má ég ekki.“ Samt leysir hún ofan af sekknum og ryður æði miklu úr honum í ána. Þegar kelling er búin að þessu þá fer hún nú að hlusta eftir því hvað móðan segi og heyrist hún segja „út á“ eins og fyrr. „A, nei, nú er ég hissa; ,út á' segir hún enn,“ segir kelling. „Á ég að gefa þér meira út á? Nei, ég gef þér nú ekki meira út á.“ Samt ryður kelling nokkru af mjöli í móðuna; en eins eftir sem áður heyrðist kellingu áin segja „út á“, og var því með umyrðunum að ryðja smátt og smátt í hana mjölinu þangað til ekkert var orðið eftir og samt heyrðist henni að áin segja: „Út á, út á!“ „Hvað er það sem mér heyrist, að hún sé að biðja mig um meira? A, já, ,út á' segir hún enn. Nei, nú get ég ómögulega gefið þér meira út á. Þú mátt nú þegja,“ segir kelling. Ekki gegndi móðan því að þagna. En kelling fór nú að flýta sér yfir hana tautandi við vatnið og gengur so leið sína heim. Kallinum brá nú æði mikið í brún þegar hann sá kellinguna sína koma aftur tómhenta og spyr hana hvörnin því sé varið. Hún þorir ekki annað en segja honum frá öllu eins og fór. En þegar kallinn heyrði þetta þá tók hann kellinguna sína og lamdi hana til dauða fyrir heimskuna.