Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þú ert ekki óþvílíkur

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Þú ert ekki óþvílíkur“

Prestur einn á Suðurlandi hafði þann sið að spyrja vermenn í kirkjunni; þókti mörgum þeirra það leiðinligt og vildu hjá því komast. Einu sinni vóru Norðlingar margir á ferð saman til suðurróðra og áttu tal um þetta, en sáu ekkert til undanfæris. Segir þá einn hvað þeir vilji gefa sér til þess að hann fríi þá við spurningar prests; þeir hétu honum talsverðu, en hann ákvað að sitja þar í kirkjunni að prestur fyrst beindist að sér, og þetta var hjá hinum auðfengið. Nú kemur þar að að prestur spyr börn að vanda sínum, og þá því er lokið gengur hann fram að sætum þeim sem vermenn sátu í; er hinn þar innstur og fremstur í sæti. Prestur spyr hann að einhverju, en hann þegir og svo gengur um nokkrar spurningar. Loksins spyr prestur hvert hann kunni ekki fræðin. „Jú, jú, eitthvað kannast ég við þau,“ segir hinn. „Lestu þá eitthvað í þeim,“ segir prestur. Hinn fer að lesa og segir: „Þetta eru tíulaga boðorð guðs: Fyrsta boðorð...“ Nú þegir hann, en prestur ætlar að minna hann á og segir: „Ég er drottinn þinn guð.“ „Er það svo?“ spyr hinn. „Já, svo er það,“ segir prestur, „ég er drottinn þinn guð.“ „Og ekki nema það,“ segir hinn, „að þú sért drottinn minn, þú ert ekki óþvílíkur, skrattinn trúi á þig í minn stað.“ Með slíkum og fleiri fáryrðum kom hann því til leiðar að prestur spurði ekki meira í það sinni og aldrei vermenn oftar.