Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þú liggur hérna, laufa ver
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
„Þú liggur hérna, laufa ver“
„Þú liggur hérna, laufa ver“
Frá því hefir verið sagt um prest einn sem ekki þókti síður fyndinn en ágjarn að einu sinni átti hann að halda ræðu eftir bónda sem dó í sókn hans, en presti þókti hann hafa goldið sér tekjur sínar bæði seint og reytingslega. Í staðinn fyrir að halda líkræðu yfir bóndanum mælti prestur fram þessa stöku á grafarbakkanum yfir kistunni:
- „Þú liggur hérna, laufa ver,
- lúnóttur í grafar hver.
- Meira ég ekki þyl yfir þér,
- þú þrjózkaðist við að gjalda mér.“
Fyndnin liggur hér í mannkenningu „laufa ver“ sem er góð og gömul, og hinu hlálega lýsingarorði „lúnóttur“ sem mun eiga að þýða brögðóttur eða refjóttur.