Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þú veizt sem er

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Þú veizt sem er –“

Einu sinni var karl og kerling í koti; þau höfðu hjá sér barn eitt og ekki fleira fólk. Karl hafði verið úti einn dag og ekki komið heim fyrr en farið var að húma. Þegar hann kemur upp á pallstokkinn kallar kerling upp og segir: „Sjáðu þefinn.“ Karl segir: „Þú áttir að segja ,heyrðu þefinn', ambögukjafturinn þinn.“ Í þessum svifum verður karli litið niður fyrir sig og sér að þar er eitthvað ljósleitt á pallinum og ætlar að það sé mör, en raunar hafði barnið gert á pallinn og kerling ekki nennt að verka upp. Þá segir karlinn: „Því farið þið svona illa með matinn?“ Kerling segir því hann láti svona; það sé úr krakkanum. Þá segir karl: „Þú veizt sem er ég þekki ekki mörinn.“ Gruflar hann svo í því sem á pallinum var og segja sumir að hann brygði hendinni í munn sér til að vita hvort ekki væri mörbragð að.