Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þúsund véla smiður

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Þúsund véla smiður

Karl einn kom til kirkju einu sinni og talaði [prestur] um spillingu mannanna og hve slægur djöfullinn væri til að kenna vinum sínum að táldraga börn ljóssins; ræki hann þessa iðn um heim allan því hann gengi sem grenjandi leon; væri það ekki að undra, því hann væri „þúsund véla smiður“.

Þegar karl kom heim frá kirkjunni segir hann prestur hafi talað margt og merkilegt í dag, en mest hefði sér þókt varið í að heyra af manni þeim einum er hann hefði frá sagt; hann væri um allan heim og þjónar hans, hann væri þúsund þjala smiður. Hann sagðist vilja koma syni sínum til hans svo hann lærði að smíða þjalir. Kerling hélt hann mundi hafa talað um þúsund véla smið. Karl hélt það hefði ekki verið. Fóru þau til prestsins og leiðbeindi hann karli.