Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þar skrapp í þornfarið

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þar skrapp í þornfarið

Einu sinni voru tveir menn að slá saman öðrumegin ár einnar sem rann eftir dal einum, en hinumegin árinnar var karl og kerling við heyskap, vinnumaður þeirra og dóttur. Hún þókti einhver beztur kostur þar í sveit. Þessum tveimur mönnum bar margt á góma um daginn og þar á meðal það hver kvenkostur þessi stúlka væri; og þar kom að annar þeirra sagðist treysta sér til að fá stúlkuna ef hann vildi. Hinn sagði að [það] mundi hann aldrei geta. Um þetta veðjuðu þeir. Eftir matmálstíma um daginn sprettir maðurinn sem sagðist mundi geta fengið stúlkuna gjörð frá hnakknum sínum, því þeir höfðu riðið í slægjuna, og spennir í hana öðrumegin ólaraxlaband sitt og gengur með þetta yfir á til karls og segir honum að þeir hafi veðjað lagsmennirnir hvort gjörðin svarna með axlabandinu næði utan um allt fólk karls sem þar var og hann sjálfan með og manninn sem veðjaði og biður hann nú að lofa sér að reyna. Karl lét það eftir. Maðurinn breiddi svo gjörðina á jörðina, lét karl leggjast á grúfu þar þvers yfir, kerlingu eins ofan á karlinn og vinnumann þeirra eins ofan á kerlingu, en bóndadóttur þar á ofan upp í loft. Nú leggst maðurinn þar á ofan, tekur inn í gjörðina og axlabandið og læzt bisa við að koma því saman. En af því bis varð af þessu nokkurt og allt þyngdi á þeim sem neðar lágu kallar karlinn upp og spyr hvað nú líði. Maðurinn segir: „Ja, þá skrapp í þornfarið;“ og lét sem hann hefði þá getað spennt gjörðina hinumegin í axlabandsendann og fór hróðugur aftur til lagsmanns síns. Þegar lengra leið frá fór að bera á því að stúlkan var ekki einsömul og gekk karl á hana um það. Sagði hún honum þá hvernig farið hefði þegar maðurinn [kom] til þeirra um sumarið áður í slægjuna, að það hefði skroppið í þornfarið. Eftir það gaf karl manni þessum dóttur sína og unnust þau bæði vel og lengi.