Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þau voru bæði hundheiðin

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Þau voru bæði hundheiðin

Einu sinni kom nýr prestur að Stað í Grunnavík; var hann ungur og sóknarbúum ókunnur. Kviðu þeir því fyrir að hann verða mundi með margt hótfyndnari en presturinn sinn sálugi verið hefði. Þetta reyndist þeim líka fljótt því strax og hann var kominn fór hann um víkina að grennslast eftir menntun ungdómsins sem lítil var, og ráða til lagfæringar. Kona nokkur bjó þá á Hornströndum eystri í Grunnavíkursókn; frétti hún um prestaskiptin og ýmisligt af háttum nýja prestsins og leizt henni misjafnlega á það allt ef satt væri. Fréttirnar fekk hún á skotspónum og stundum bar þeim ekki saman svo hún vissi ekki hvorju var að trúa.

Um sumarið kom til hennar maður nokkur ókenndur. Hún spyr hvor hann væri; hann segist vera heimamaður á Stað; henni dugði það og hélt hann væri vinnumaður prestsins. Maðurinn var mjög alúðlegur og gjörði hún sig því opinskára um allt við hann, spurði hann sem vendiligast eftir prestinum og stóð honum ekki við að svara því, sagði honum allt er hún hafði um prestinn frétt, illt og gott, og leiðrétti hann hana um margt af því svo henni hugnaði vel. Loksins spyr hún hvert það sé satt að hann grennslist eftir uppfræðingu fólks. „Já,“ segir hann, „hann spyr alla, unga og gamla.“ Hún blæs þá mæðiliga og segir: „Það gefur mér og honum Páli sem bæði erum hundheiðin.“ Páll var sonur hennar, en maðurinn sem hún talaði við var presturinn.