Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þegar Satán var í ruggu
Útlit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Þegar Satán var í ruggu
Þegar Satán var í ruggu
Kerlingar tvær gamlar hittust einu sinni og tóku tal með sér. Mælti þá önnur kerlingin við hina: „Þú ert, blessuð mín, orðin ógnar gömul.“ „Já, komin er ég til ára sem þú getur vitað af því að ég man eftir Ábrahám.“ „Þá er ég þó mikið eldri,“ mælti hin, „því ég man eftir Sátán og meir að segja að ég átti við hann þegar hann var í ruggu. Átti ég þá marga vökunótt því hann var hinn mesti óspektargrís, og ætti ég hönk upp í bakið á honum karlinum fyrir fyrirhöfn mína á honum. Mér þætti ekki ólíklegt að hann kynni að muna mér það og ég tel það víst að hann mundi skjóta skjólshúsi yfir mig þegar ég yrði svo á vegi stödd að ég fengi hvergi inni annarstaðar.“