Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Þegar aðrir drekka ekki í blóra við mig

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Þegar aðrir drekka ekki í blóra við mig“

Prestur tók eftir því að kerling ein í sókn hans kom fremur öðrum oft til altarisgöngu. Eitt sinn spyr hann hana hvað því valdi, hvort það sé af trúrækni hennar eða öðrum hvötum. „Og það er af því,“ mælti kerling, „að mér þykir vínið svo gott.“ Prestur innir hana eftir hvort það sé einungis af því. Kerling segir að það sé ekki af öðru, hún segi það satt. Prestur spyr hana hvort henni geti þá ekki verið sama að koma rétt inn til sín og hann gefi henni þar að súpa á víninu. „Ójú,“ segir kerling, „ég vil það miklu heldur því ég kann að fá drýgri sopann þegar aðrir drekka ekki í blóra við mig.“