Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Aldrei verður hann góður fyrri
Aldrei verður hann góður fyrri
Þegar Vernharður prestur Guðmundsson var í Otrardal[1] hélt hann á bæ sínum kellingu eina sem fóstraði barn. Hafði hún mikla trú á umgangi drauga og djöfla og ræddi margt um; þá dimma tók meinti hún slíkur fénaður væri helzt á flakki. Drengir kátir vóru hjá prestinum og léku sér oft að því að gjöra kellingu ýmsar skráveifur þá myrkt var, og ætlaði hún það allt verkanir óhreinna anda. Einu sinni í haustmyrkri bar einn maurildi úr blautum fiski á tvo fingur sér, læðist nær kellingu og sér hún tírurnar. Ætlar hún að vera muni glyrnur í kölska, tekur nú að særa hann burt frá sér og barninu. En það tjáði ekki; hann þokast því nær. Hún fer að hrækja og sveia og þess í millum lesa andligar bænir, en ekkert hrífur. Hún grípur kopp sinn og skvettir úr og bregður honum ekki við það og þá segir hún: „Aldrei verður hann góður fyrri en ég kasta í hann barninu.“
- ↑ Vernharður Guðmundsson (um 1713-1798) var prestur í Otrardal frá 1756 til dauðadags.