Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Altarisgangan

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit

Nú bjuggu bræðurnir tveir félagsbúi á Bakka. Eitt vor nokkru eftir fráfærur fara þeir til altarisgöngu að Barði og nú er þeim skriftað. Eftir skriftir fara þeir sín á milli að tala um lömbin á Bakka sem nýrekin voru á afrétt. Þeir muna báðir að ærnar voru 29 og telja nú upp á fyrir á hvernig litt og hvers kyns lamb að var undir hverri á. Gengur þetta nú allt vel til þess komnar eru 28 ærnar og lömbin jafnmörg. Nú er eftir 29. ærin, hún var svartflekkótt. „Og þá lambið?“ „Það var höttóttur hrútur,“ segir annar. „Nei, ekki var hann höttóttur, hann var flekkóttur,“ segir hinn. Þræta þeir nokkuð um þetta unz annar þeirra segir: „Við skulum ekki vera að þræta um þetta; við skulum skreppa fram á Seljárdal“[1] sem er fremsti dalur í Flókadalsafrétt. Fara þeir að leita að honum, ganga allan daginn og finna hvergi þrætulambið. Voru þeir nú búnir að missa af altarisgöngunni. Um nóttina komu þeir heim í Bakka jafnnær um lömbin. Daginn eftir kom það upp úr kafinu að lömbin höfðu verið 30, því að flekkótta ærin hafði verið tvílembd og átt tvo hrúta; var annar hrúturinn flekkóttur, en hinn höttóttur. Ekki gátu þó bræðurnir sannfærzt vel um þetta fyr en eftir göngurnar um haustið, að sjón varð sögu ríkari þegar lömbin alheimtust og báðir hrútarnir komu.


  1. Messuvegurinn frá Bakka að Barði er hér um ¾ mílu í landaustur; vegurinn frá Barði fram á Seljárdal meir en 1¼ mílu í suður; skemmsti vegur af Seljárdal heim að Bakka meir en 1½ míla. Hér við bætist nú allur gangur bræðranna um Seljárdalinn, svo ekki var furða þó þeir yrðu seint fyrir. [Hdr.]