Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Atla að hann sé ekki líkur mér?

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
„Atla að hann sé ekki líkur mér?“

Það var einu sinni karl og kerling í koti sínu og áttu ekkert barn og var karlinn mjög illur við kerlinguna og segir að það sé henni að kenna. Einu sinni fer karl eitthvað að heiman og segir við kerlinguna að ef hún verði ekki búin að eiga barn þegar hann komi aftur skuli hann drepa hana; fer hann so í burtu. Kerling er í ráðaleysi og gengur til einnar yfirsetukonu og segir henni það allt. Yfirsetukonan segir að veiða hrafn; þær gera það, reifa hann so. Fer kerling heim með hrafninn í reifum og situr með hann. Þegar karl kemur tekur hann við hönum og er að segja: „En hvað hann er snareygður og niðurbjúgt nef, atla að hann sé ekki líkur mér?“ Karl fór að losa um hann reifana, en þá flaug hann í burtu. Þá segir karl: „Vertú mikill og búðu á himnum.“ Og sáu þau so ekki krumma framar. Endar so þessi saga.