Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Bænagjörð bóndans

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni var gamall bóndi, vel megandi, en heldur einrænn í skapi og gamaldags í háttalagi. Hann var kirkjurækinn og presti sínum vel unnandi. Hann var í sömu sókn og sýslumaður. Þeir sem sátu næstir bónda þessum í kór urðu þess varir að bóndi þessi hafði nokkuð undarlega bænagjörð eftir embætti. Þegar þetta fór að kvisast þá ber so við einn messudag að endaðri messu, [að] þegar farið er að lesa bæn eftir messu stendur sýslumaður upp og lætur sem hann muni ganga út, en sezt niður hjá kalli þessum sem þá bænir sig og segir: „Herra guð, heyr þú ósk mína! Gefðu að eldhúsið mitt brenni, presturinn deyi, en sýslumaðurinn lifi.“ Þegar fólk er komið út kallar sýslumaður á bónda þennan og lætur sem hann vilji hafa við hann einmæli, en kall segir að hann muni ei hafa annað við sig að tala en það sem allir mega heyra. Sýslumaður sagði það mætti líka so vera og sagði sig langaði að fá útskýring bænagjörðarinnar. Bóndi kvaðst mundi það geta þó lítið mark væri að munnfleipri sínu. „En ef yður er forvitni á, þá má vita hvört þér verðið nokkuð ánægðari eftir en áður. Og er þá fyrst að ég er nú kominn á áttræðisaldur og hef oftast verið kallaður sjálfum mér bjargandi. Þegar ég var nýfarið að byrja þennan sokallaða búskap brann eldhús mitt sem þá hafði lítið að geyma nema nokkuð af reipum og fáa skinnbjóra, en blessað fólkið bætti mér þann skaða aftur og gaf mér mikið meira. So mörgum árum síðar brann eldhús mitt aftur og þá var nokkuð mikið í því af ýmsu tæi og var mér margfaldlega aftur bættur sá skaði. Og nú hefur það þó ennþá meira að geyma og veit ég að ef það nú brennur fæ ég miklu mest. Líka hafa hér verið mína tíð þrír prestar og var sá fyrsti af þeim af öllum vel metinn, enda held ég allir hafi verið með hann ánægðir enda var hann af almenningi tregaður. En sá sem eftir hann kom var þó honum töluvert betri, en þó hefur þessi honum mikið verið meiri, bæði að kenningum og allri manngæzku, so ég er fulltrúa um að ef hann deyr mun koma engill eða heilagur maður til að vera prestur okkar. – En sá sem hér var fyrst sýslumaður þegar ég man var fullharður og ágjarn; so kom annar sem hann gjörði þó góðan og urðu allir fegnir þegar hann drapst. En þá tók ekki betra við þegar þér komuð, því langverstir eruð þér. Og ef þér deyið hefi ég ei aðra hugsun en að myrkrahöfðinginn eða hans jafningi verði hér sýslumaður.“ Við þessa ræðu þagnaði sýslumaður og gekk burt, og segir sagan að hann hafi orðið góðum mun betri á eftir.