Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Bóndadóttir og biðlarnir

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Bóndadóttir og biðlarnir

Maður einn bændastéttar ókvæntur vildi leita sér kvonfangs og biðla til vænnar bóndadóttur í annari sveit. Treysti hann sér lítt með sitt eindæmi að fá hennar og fékk hann því prest sinn að fara með sér bónorðsförina að túlka mál sitt. Bjuggu þeir vel ferð sína og komu á bæinn, og var þar vel tekið við þeim. Prestur bar erindið upp við foreldra stúlkunnar og mælti vel fyrir sem mátti því maðurinn var vænn. Tóku þau málinu vel, en skutu til atkvæða dóttur sinnar og var hún til kvödd. Leizt henni allvel á manninn og urðu þau málalok að hún lofast honum með samþykki foreldra hennar og varð hann nú erindi feginn. Að svo búnu taka þeir gistingu um nóttina og skorti sízt á góðan beina.

En er á leið kveldið tók prestur að gjörast ókátur og duldi hann orsökina. Hann var sjálfur ungur og ókvongaður og fór honum að lítast vel á bóndadóttur og iðraði hann þess að hann hefði eins fast og hann gjörði fylgt máli mannsins og ekki heldur beðið stúlkunnar til handa sjálfum sér og þótti ekki auðvelt að breyta því er fastmælum var bundið. Þó reyndi hann um kveldið að ná stúlkunni á einmæli og opinbera henni vilja sinn og bað hana hitta það ráð að maðurinn vildi frá hverfa. Og með því henni leizt vel á prest hugsar hún sig ei lengi um svar og hét góðu um tilmæli hans. Duldu þau nú þessa foreldra hennar og þá sjálfsagt biðilinn. Leið nú svo nóttin að prestur svaf lítt og reis snemma úr rekkju og um morguninn var hann ásamt biðlinum að litast um á bænum utan húss og innan. Sáu þeir að heimilið var vel um hirt og ríkmannlegt. Þeim varð reikað inn í eldhúsið og voru mæðgurnar þar fyrir og var hin eldri að kasta mjöli út á stóran pott, en hin að hagræða undir pottinum. Báðar voru þær vel búnar í skart, einkum brúðarefnið. Þeir námu staðar í eldhúsinu og tóku að tala við mæðgurnar. Var hin yngri mjög málreitin og ókurteis í orðum og hló á milli skrípahlátra, en er suða kom upp á grautnum tók hún ausu stóra og fór með henni að sleikja mélfroðuna hráa. Slettir hún sér niður í öskubing er var öðrumegin hlóðanna, sleikir í ákafa og lætur leka ótæpt af ausunni niður í klæði sín. Móðir hennar setur dreyrrauða er hún sér athæfi dóttur sinnar, og mælir við hana; hún hlær við því og segir: „Ekki verr en vant, móðir mín, og þarftu ekki að kippa þér upp við þetta núna.“ Og er hún hafði nokkra stund setið og sleikt þurfti að hagræða undir pottinum; kastar hún þá ausunni, stekkur upp úr öskubingnum, þrífur skörunginn og rífur til í hlóðunum, stendur gleitt fyrir framan þau og heldur með annari hendi hátt pilsunum að framan; veltur þá hjá henni stór mókökkur logandi fram úr hlóðunum og milli fóta hennar; kippir hún þá fötunum heldur hátt, skellihlær og segir: „Jæja þá, farðu þangað sem fleiri hafa farið.“ Meðan á þessu stóð varð móðir hennar frá sér numin og orðlaus og biðillinn skrafaði fátt, en prestur mælti í glettingum eins og til að æsa hana enn meir. Að þessu búnu ýtir biðillinn í prestinn að þeir gangi burt úr eldhúsinu, og fara þeir út. Er biðlinum þá þungt fyrir brjósti og mælir við prest að hér muni sannast máltækið að oft sé flagð und fögru skinni þar sem kærastan sín sé, og geti hann ekki hvað sem kosti átt slíkt flagð. Prestur kvað honum nokkra vorkunn þess, en nú væri bágt viðgjörða sem hann vissi. Töluðu þeir nú til og frá um þetta, en svo réðist að maðurinn bað prest að ónýta trúlofunina og hét prestur viðleitni sinni til þess, en þótti ekki árennilegt að hlutast þar til þar sem hann hefði svo vel stutt mál hans áður. Litlu síðar gengur prestur til stofu, en segir biðlinum að sækja hesta þeirra á meðan hann tali við hjónin því stuttar muni verða kveðjurnar þegar málum sé brugðið. Prestur ræddi við hjónin og stúlkuna og ávann það að maðurinn slapp útlátalaust þótt hann brygði trúlofuninni; og áður þeir færi af stað mataðist prestur í stofu og biðlinum var borinn grautaraskur í baðstofu af grautnum góða. Fóru þeir svo heimleiðis, en litlu síðar sótti prestur stúlkuna og giftist henni.