Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Bóndi reiðir barn til skírnar

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Bóndi reiðir barn til skírnar

Einu sinni bjuggu hjón nokkur norður í Laufássókn; þau höfðu fátt hjóna á bæ sínum. Bóndi gat barn við konu sinni og ætlaði hann að reiða það til kirkju til skírnar. Þegar hann fór af stað vantaði hann poka eða fat til að vefja utan um barnið því að regn var mikið. Bónda verður eigi ráðfátt og þrífur skinnstakk skorpinn og harðan er hann átti, og lét þar í barnið; batt síðan stakkinn fyrir aftan sig og reið svo leið sína til kirkjunnar. En er hann kemur þar stígur hann af baki og ætlar að taka barnið úr stakknum, en grípur nú í tómt því þá er barnið týnt. Hann bregður nú við og ríður aftur sömu leið, en finnur ekki barnið; ætlar hann nú að hundar muni hafa fundið það og etið það upp. Hættir hann því leitinni og snýr aftur til kirkjunnar. Hann heyrir þá söng mikinn í kirkjuna og spyr að hvort til sé tekið. Honum er sagt að það sé ekki, en prestur sé að skíra barn sem messufólk hafi fundið á leiðinni til kirkjunnar. Bónda verður svo mikið um þessa fregn að hann hleypur að kirkjudyrum, en rekur sig um leið á syllueyrað er fram stóð öðrumegin úr þili kirkjunnar; kenndi hann mjög til við höggið, strauk um skallann og mælti: „Það var mikið að menn skyldi hvergi geta sett kirkjuskömmina nema rétt á miðjan gangveginn.“ Prestur tók að sér barnið og ól það upp.