Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Bónorðsförin

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni voru tveir bræður norður í Axarfirði báðir heimskir, helzt annar, en hinn var vel látinn. Nú vill hinn heimskari giftast og biður bróður sinn að fara með sér til að tala máli sínu. Þeir fara af stað og inn í Kinn, biðja bónda gistingar, föður stúlkunnar, og er þeim veitt hún. Um kveldið er borinn á [borð] spaðgrautur, en biðillinn hugsar sér að vera hæverskur og borða lítið. Og nú eru bornar leifarnar fram í búr, en hann fer fram og sér hvar pottur stendur í búrinu með spaðgraut í. Hann hugsar sér að gera sér gott af því um nóttina því sjálfur var hann hungraður.

Nú er farið að hátta og sefur hann hjá bróðir sínum. En þegar bróðir hans er sofnaður fer hann á fætur og fer fram, dregur kenginn út úr búrstafnum og kemst svo inn og étur nægju sína úr pottinum, en hugsar [sér] nú að færa bróðir sínum ögn í ausunni inn í rúmið; fer inn, en fer rúmavillt og vekur bróðir konunnar og segir: „Vaknaðu, bróðir! Varstu ekki svangur í gærkveldi? Hér er matur; það er grautur og biti með.“ Hinum bregður heldur við og segir: „Hver fjandinn er þetta?“ En hinn skammast sín og má til að segja hið sanna; en bónorðið fór út um þúfur.