Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Barnkind, en ekki sauðkind

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Barnkind, en ekki sauðkind

Það er sagt að einhvern tíma hlotnaðist íslenzkum manni sú vegtylla að hann var leiddur fyrir drottninguna sjálfa. Segja sumir að það hafi verið Jón biskup Teitsson, en aðrir nefna aðra til. En nokkuð er það að drottningin var þýzk, en biskup hefur verið linur í þýzkunni sem sagan sýnir. Drottningin vék sér mildilega að biskupi og spurði hann að högum sínum, konu og öðru slíku, og varð biskupi fátt til svara. Loksins spurði drottning hann: „En hvað mörg börn (kinder) eigið þér?“ „Fimmtigi kindur, yðar hátign,“ svaraði hinn. „Fimmtigi kinder; en hvað gerið þér, veslingur, við allan þennan kinda(barna)-grúa?“ svaraði drottning. „Já, og það er ekki neitt, ég er kindafár, en sumir eiga tvö og þrjú hundruð kindur. En á hverju hausti skerum við hér um bil helminginn af kindum okkar og étum þær á veturnar.“ „Guð varðveiti mig,“ sagði drottning. Þá fóru að renna tvær grímur á biskup, að hann mundi hafa svarað drottningu út í hött, og kom þá upp að biskup hafði í huganum sauðkindina, en drottningin spurði um blessaðar barnkindur biskups.