Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Baunakrukkan

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Baunakrukkan

Einu sinni fór biðill í kvonbónaferð. Honum gekk illa að giftast því hann var bæði heimskur og hið mesta átvagl. Hann kemur nú á bæinn þar sem stúlka sú var á er hann hafði augastað á. Kveld var komið og hann beiddist gistingar sem honum var í té látin. Um kveldið eru honum bornar baunir og kjöt til snæðings, en hann neytti lítils því hann vildi sýnast hæverskur. Eftir það er honum vísað til sængur í baðstofunni þar sem hann skal hvíla nóttina yfir. Hann háttar hið snarasta og fólkið gengur til hvílu og sofnar brátt.

Um kveldið gaf hann áður gætur að hvar krukka eður kanna stóð á borðinu með baunum og keti í gagnvart rúmi bóndans sem vóru leifar hans, og þenkti hann að gera sér gott af því þar hann þoldi ekki við fyrir hungri. Hann fer því ofan á skyrtunni og þangað sem kannan stóð, en baunirnar vóru svo þykkar að hann gat ekki sopið þær af barmi. Fer hann því með hendina ofan í krukkuna, en nær henni ekki upp aftur [og] verður því ráðalaus. Hann litast því um og sér hvar glampar á eitthvað er honum virtist steinn vera, því tunglsljós var, og rekur hendina með krukkunni þar ofan á. En í því er rekið upp óttalegt hljóð svo fólkið vaknar og er brátt farið eftir ljósi. Þegar inn var komið með það var biðillinn hálfber að skreiðast upp í rúmið aftur. En bóndinn lá blár og blóðugur í rúmi sínu, krukkubrotin út um allt og baunirnar. Var svo farið að verka upp höfuð bónda og bjó hann að þessu um lengri tíma. Hann var sköllóttur og hafði í svefnrofunum lagt höfuðið fram á rúmstokkinn. En biðillinn varð að segja frá öllu saman og fór í burtu með sneypyrðum og skömm og þókti honum fótur sinn fegurstur og kom þar aldrei síðan.