Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Biðillinn í krukkunni

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni bjó ungur maður með móður sinni. Þau vóru efnug, en hann var heimskur. En þó kom honum til hugar að fá sér stúlku og segir við móðir sína að sér sé hugkvæmt að fara giftast. Hún tekur því vel, en hann segist samt ekki vera búinn að hugsa sér neina. Móðir hans kveðst skuli vísa honum á hana og segir þar sé ein efnug bóndadóttir í grenndinni.

Nú fer hann að búa sig og fer ríðandi, því það var nokkuð langt, en [móðir hans] ber honum að borða áður; en hann þurfti mat sinn. Hún segir við hann hann skuli ekki borða mikið hjá bóndanum því stúlkan kann að halda að hann sé einhver óhófsskepna; hann segist muni sjá um það. Nú fer hann á stað og léttir ei fyrr en hann kemur til bónda og gerir boð eftir honum. Bóndi leiðir hann í stofu og fer hann að vekja til um bónorðið. Bóndi tekur því ekki fjarri ef stúlkunni sé það hugþekkt. Hún er svo kölluð og segir hún það skuli vera í föður síns valdi og fýsir hann dóttir sína til þessa ráðahags, og fer allt vel. Og er nú borið á borð fyrir hann allra handa kjöt, magálar, skyr, ostur og ann[að] þvíumlíkt, og borðar hann nú ósköp lítið. Konan segir hann hafi ekki lyst á þessu og sé það leitt að hafa ekkert er honum sé bjóðandi. Hann kveðst nú enginn matmaður vera í raun og veru; hún segir það sé auðséð.

Nú líður að kveldi og fer það eins að hann hefir ekki lyst til að borða neitt að mun. Hann er síðan látinn sofa í gestarúmi á móti hjónunum. Um kveldið kemur konan inn með rauðseydda grjónamjólk í könnu og setur hjá honum á borð, er það milli rúmanna, og segir hann skuli væta sér á þessu í nótt ef hann þyrsti. Nú fer allt fólk að sofa.

Svo er sagt að bóndinn hafi haft skalla, og hafði kallinn um nóttina í svefnrofunum velt sér fram á rúmstokkinn og hvítur skallinn lá fram af stokknum. Biðillinn getur ekki sofnað, en lætur ei á sér bera, fyrir hungri. Hann sezt þá upp og segir við sjálfan sig: „Illa fór að ég skyldi gegna móður minni til þess að éta svona lítið; því þoli ég nú ekki við fyrir hungri.“ Hann tekur þá könnuna og hugsar sér að hann skuli ekki leifa úr henni og slokar úr henni því sem hann getur, en grjónin höfðu festst á botninum og náði hann þeim því ekki og hugsar sér því að brúka hendina og rekur hana ofan í könnuna, en hún var hálsmjó, og þrengir samt hendinni ofan í hana. En nú nær hann henni ómögulega upp aftur, því hann hafði nú fulla lúkuna, og verður því ráðalaus. Hann hugsar sér að skömm sé að hafa könnuna á hendinni um morguninn og hugsar hann skuli brjóta könnuna af sér og berja henni í rúmstokkinn hjá bónda því þá hugsi menn að kötturinn hafi sett hana niður og mölvað hana og fært hana til um leið á borðinu, og slær henni því ofan í beran skallann á bóndanum því hann var hvítur vegna þess að tunglsgeislinn skein beint á kallinn. Og vaknaði kallinn með háhljóðum því höfuðið sprengdist á honum. Bumban á könnunni brotnaði í sundur, en þá [var] hálsinn af könnunni sem hringur utan um hendina á biðli. Fólkið vaknaði við óhljóðin úr kalli og var þotið til og kveikt ljós. En þegar biðillinn sér það hleypur hann upp úr rúminu berfættur í nærfötunum með hólkinn utan um hendina, út úr bænum. Kallinn þolir nú ekki við í höfðinu svo vakað er yfir honum með ljós inn til dags. Um morguninn sér það að biðillinn er horfinn og er þá farið að svipast eftir honum. Hann finnst þá niður í gróf nálægt túninu er hann hafði farið ofan í vegna kulda. Og kemur það nú honum heim hálfdauðum í kulda og er nú farið að velgja ofan í hann einhverja hressingu, en hann gat ekki neytt neins fyrir skömm og sneypu og fór hið fljótasta heim til móðir sinnar stúlkulaus.