Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Biðlarnir og stúlkan
Biðlarnir og stúlkan
Annar þeirra var ríkari og allspjátrungslegur, en hinn lítilmannlegri og setningssamari. Þeim fyrrnefnda var jafnan betur tekið. Eitt sinn fundust þeir á leið þeirri er [l]á að heimili stúlkunnar. Hvor spyr annan að hvort þeir ætli, en báðir segjast ætla þangað, og fara svo leið sína. Þá tekur sá minni háttar til orða og segir það sé skrýtið orðfæri haft á því heimili og það hafi valdið því hann hafi ekki viljað dóttur hjónanna þegar sér hafi boðizt hún, að hann hafi ekki getað brúkað það orðfæri. Hinn spyr hvað það sé. Hann segir að grautarausan sé kölluð „fuð“, matarskálin „res“ og borðskeiðin „tes“. Þegar þeir koma þar fala báðir gistingu. Um kvöldið er farið að skammta grautinn nálægt aðsetri gestanna. Þá segir sá biðillinn sem í meiri metum var, við húsmóðurina: „Það er hár á fuðinni yðar, heillin góð.“ Hún verður hvumsa við þetta, fær þó gestunum grautarskál og tvær skeiðar. Þöguli gesturinn talar við hinn hvort hann vilji ekki fá skálina nær sér. Hinn segist ekki þurfa þess og segir: „Ég hef svo langa tes ég næ vel í res.“ Þetta þókti hjónunum og dóttur þeirra dónalegt klám. Um morguninn fer þessi orðframi biðill að bera upp bónorð sitt; en það var óðari nei; og fór burtu svo búinn. Litlu síðar biður hinn stúlkunnar og fær hana.