Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Djöful þann sem drumbinn bar

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Djöful þann sem drumbinn bar“

Karl bjó í koti hjá Útskálum í Garði. Einu sinni sem oftar gekk hann á reka. Þá fann hann trédrumb á Útskálarekanum og bar hann heim til sín í laumi. Næsta sunnudag eftir fór hann til kirkju. Þegar hann kom inn í kirkjuna var prestur kominn upp í stólinn, og það hittist á að þegar karl rak inn höfuðið sagði prestur: „...rak út djöful þann sem dumbi var.“ Karli heyrðist hann segja: „djöful þann sem drumbinn bar,“ og hugsar hann hafi meint til sín og verið að skipa að reka sig út. Þá varð kallinn illur í skapi og kallaði upp: „Það hafa fleiri stolið af rekunum þínum heldur en ég.“