Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Draumurinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, ritstjórn Jón Árnason
Draumurinn

Einu sinni í sókn prests nokkurs var harðsvírugur bóndi einn sem aldrei kom til kirkju og því síður að hann væri til sakramentis. Prestur ávítaði hann iðuglega fyrir það, en það kom fyrir ekki.

Einu sinni sendir hann boð eftir presti og biður hann að þjónusta sig því hann segist muni eiga skammt eftir ólifað. Já, prestur hugsar að loks hafi hann þó getað komið syndaranum á hinn rétta veg aftur með fortölum sínum og heitir að koma á ásettum tíma. Þegar prestur kom til bónda lá hann í rúminu og sýndist vera þungt haldinn. Prestur fer nú að spyrja bónda hvernig honum líði og bóndi segir að það sé nú auma heilsan; – „en einkum er það draumurinn sem mig dreymdi í nótt sem angrar mig mikillega. Vildi ég nú segja yður hann áður en þér þjónustið mig.“ Presturinn samsinnti það og bóndinn sagði: „Ég þóttist vera dáinn og þóttist vera kominn til himna; þar fann ég Sankta-Pétur fyrstan manna. Ég bað hann fyrir alla muni að lofa mér inn í himnaríki, en þar var nú ekki nærri komandi; Pétur gamli lætur ekki narra sig. Hann sagði sem svo við mig: „Þú varst aldrei til altaris í lífinu og því verður þú að standa úti fyrir.“ Ég hélt þá við hann að þar myndi vera nógir prestar sem gæti tekið mig til sakramentis. „Nei, það er nú síður en svo!“ sagði Pétur; „þeir fara fæstir hér inn, heldur hinn veginn, og þeir sem hér eru eru alla tíma svo syfjaðir að aldrei er hægt að núa þeim úr bælinu hvað mikið sem liggur á.“ Þegar Sankti-Pétur hafði sagt þetta þaut hann inn eins og annar dúðardurtur, en ég stóð undrandi úti. Stóð ég þarna dálitla stund og var að hugsa um hvað gjöra skyldi. Loks réði ég það af að fara til helvítis og finna flugnahöfðingjann. Þegar ég kom að vítisportum barði ég að dyrum. Kölski kom út. „Fæ ég ekki inngöngu hér?“ sagði ég. „Nei,“ sagði kölski, „því er nú ver; en hér er ekki nema eitt pláss autt eftir og það hefi ég ætlað fyrir sóknarprestinn þinn þegar hann kemur.“ Og þetta er nú það sem angrar mig, prestur minn, mest yðar vegna.“ Prestur kærði sig ekki um að heyra meira, heldur hypjaði sig í snatri af stað, enda hætti bóndinn sögunni og stökk alheill á fætur.

Er þess ekki getið að bóndinn beiddist sakramentis af þeim presti oftar, enda líka hætti prestur að setja ofan í við hann.