Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Drykkjurúturinn í helvíti

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Drykkjurúturinn í helvíti

Einu sinni voru tveir menn að smíða stórsmíði í smiðju. Að áliðnum degi kom þangað til þeirra drykkjumaður nokkur sem var svo illa til reika að hann valt sofandi af hestsbaki og ofan í hlaðbleytuna. Tóku smiðirnir hann þá og báru hann inn í smiðjuna og lögðu hann á viðarkolabing; svaf hann þar til þess dimmt var orðið. En um það bil sem smiðirnir voru hættir að smíða, en þó ekki búnir að slökkva eldinn fór drykkjurúturinn að rumskvast; fóru þeir þá út í horn og létu ekki heyra til sín. Drykkjurúturinn fór nú að þreifa í kringum sig og fann kolin undir sér og sá í eldsglæðurnar hálf slokknar; hugðist hann þá mundi vera dauður og vaknaður upp í helvíti; hann reis upp þá við alboga og hlustaði um stund. En þegar hann heyrði samt ekkert leiddist honum og kallaði hátt: „Getur nú enginn af öllum þeim djöflum sem hér eru samankomnir gefið mér í staupinu?“ Þá gáfu hinir sig fram og með því endar sagan.