Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Ekki bregður mær vana sínum

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri (1864)
„Ekki bregður mær vana sínum“

Einu sinni voru hjón sem áttu sér eina dóttur barna. Hún var ekki eins ómyndarleg í sjón eins og hún var í flestu því sem hún átti að sér að hafa. Þegar hún var orðin gjafvaxta fór þó það að kvisast að manni í sömu sveitinni litist á hana svo að það var í mæli að hann mundi þá og þegar koma og biðja hennar enda voru foreldrar hennar efnaðir. Einn dag kemur og maður þessi þangað og lætur húsfreyja dóttur sína fara til dyra að taka á móti gestinum og bjóða honum til stofu. En frá því sást til mannsins og þangað til hann var kominn heim á hlað sátu þær mæðgur við að næla nálum með alla vega litum endum í húfu heimasætunnar svo það liti svo út sem hún sæti bísperrt við ísaum. Nú hagaði svo til að örskammt var að ganga frá baðstofu, þar sem þau karl og kerling sátu, til dyra svo þegar stúlkan var komin fram í dyrnar, rétt að manninum, segir móðir hennar svo maðurinn heyrði fram í dyr, inni við bónda sinn er var orðinn afhuga um að dóttir sín yrði að manni, því síður að hún giftist nokkurn tíma: „Ekki bregður mær vana sínum,“ því hún átti við ísaum dóttur sinnar og bandendana í húfu hennar, en bóndi svarar jafnhátt: „Á, mígur hún undir enn?“ Þegar komumaður heyrði það sem hjónin höfðu sagt leizt honum ekki á blikuna og fór burt án þess að bera upp bónorðið.