Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Fávís brúðgumi

Úr Wikiheimild
Jump to navigation Jump to search

Einu sinni bjó maður með móðir sinni og var orðinn gamall, því engin stúlka hafði viljað hann, hann var svo heimskur. Kelling segir við hann að hún fari nú bila að vera fyrir búi með honum og verði hann því að fara að fá sér stúlku. Hann spyr hvar hún hafi fest auga á stúlku handa sér; hún segist skuli vísa honum á hana og ef það lukkist þá fái hann nokkuð, hún sé einbirni og faðir hennar eigi jörðina er hann búi á.

Nú býr hann sig til ferðar í sín beztu föt og æðir af stað, kemur svo á bæinn til bónda og tekur bóndi honum vel, því biðillinn eða þau voru vel efnug, en bóndi mat þess konar mikils og vildi gifta dóttir sína þeim helzt, hvað sem öðru leið. Hann hefir bónorð sitt við kall og er því vel tekið af honum, en dóttir hans kveðst mega vera háð vilja hans, og fer biðillinn heim aftur með góða von um stúlkuna. Stúlkan fer þá að heyra utan að sér og fólkið fer að lá kallinum að hann skyldi hafa heitið svo vænni stúlku slíku flóni, og fer að renna á hana tvær grímur, en kall er hinn sami. Hún fer til hans um vorið, er þar um sumarið. Að haustinu á að halda brúðkaupið og er því farið að búa til í veizluna og er hún sjálf fyrir því. Hún býr til þrjár kökur fyrir utan veizlubrauðið og hefir þær bæði þykkar og stórar úr fínu mjöli og mótar þær í brauðmóti og löðrar þær í sírópi. Hún lætur þær síðan veizludagsmorguninn innan í klút og stingur síðan undir höfðalag í rúminu er þau áttu nú að sofa í næstu nótt. Nú gengur allt fyrir sig um daginn og veizlan er setin um kveldið. Eftir þetta fara þau að hátta. Hann segir þá við hana að nú biðji hann hana um píkuna sína. Hún segir hvaða vitleysa þetta sé, því enginn maður spyrji eftir henni fyrri en þrjár nætur séu liðnar. Það segist hann ekki geta beðið svona lengi. Hún færist sífellt undan, en þegar þessi undanfærsla dugar ekki lengur laumast hún undir sængina og tekur eina kökuna og rekur að honum og segir honum sé bezt að taka við henni. Hann tekur við og fer hið fljótasta að bryðja og er þar til að hann er búinn að ljúka kökunni. Meðan hann er að éta er hann smátt og smátt að fara orðum hvað þetta sé gott og ekki sé ofsögum sagt af því hve góð píkan sé, og óskar að hún gæti aldrei þrotið. Og fer hann nú að sofa hinn ánægðasti.

Nú kemur aftur önnur nóttin að þau hátta bæði saman; fer hann að ánýja aftur að það viti hann að eftir hafi verið af píkunni. Hún segir nei, hún sé [ekki] nema ein. Hann verður hinn ólmasti og fær hún honum því aftur aðra kökuna og segir hann megi nú ekki framar heimta meira. Hann étur kökuna enn [með] sömu orðum og fyr og svo sofnar hann.

Nú kemur þriðja kveldið og þá tekur hann til að heimta píkuna og má hún þá til að láta hann hafa hina þriðju og segir því að ómögulegt sé nú að hann geti nú fengið hana framvegis, hann sé svo viti borinn að [hann skilji] hún endist ekki ævinliga. Nú kemur fjórða kveldið og lætur [hann] þá ver en áður. Hún segist vera búin að segja honum að nú sé ekkert eftir, en hann vill ekki trúa því og fer hann nú að þreifa fyrir sér í rúminu og leita og finnur ekkert. Hann segir hún verði að fara ofan svo hann geti leitað. Hún gerir það, þó með umyrðum. Nú leitar hann og rífur öll fötin úr rúminu og allt saman ofan í fjalir og finnur ekkert. Hún segir hann skuli nú sjá hvert hún hafi ekki sagt honum satt, en það geti hún sagt honum að hún skuli ekki aftur þrengja að honum í rúminu, heldur yfirgefa hann, þvílíkt flón, og fari hún því aftur heim til föður síns. Og með það kveður hún hann og tekur með sér föt sín og fer heim til föður síns. En hann sat eftir konu- og kökulaus þaðan í frá.