Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Farðu norður og niður

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri  (1864) 
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
„Farðu norður og niður“

Til þess er sú saga að einhverju sinni sem oftar reri maður fyrir norðan en þegar hann ætlaði í land kom vindur á móti honum sunnan og rak hann undan landi æ lengra og lengra svo hann hélt að sig mundi reka út í hafsauga; og fór honum ekki að verða um sel því einlægt dimmdi og dimmdi sem hann rak lengra, og loksins sá varla út úr augunum fyrir þoku og sorta. Loksins bar hann að landi, festi bátinn og gekk á land, en þegar hann greip höndum í fjöruna, því ekkert sá hann, þá var mölin tóm aska og kol. Nú fór honum ekki að lítast á, hélt þó áfram í norður og var snarbratt ofan í móti og niðamyrkur. Svona gekk hann langa-lengi blindandi þangað til hann grillti í eitthvað rautt; hann gekk á skímuna og kom loksins að miklu báli sem ekki sá út yfir. En það undraði hann að í bálinu úði og grúði af einhverju lifandi eins og mor eður mý. En fyrir framan bálið stóð hræðilegur jötunn með óttalegan járngogg í hendinni, skaraði í bálið og sópaði til að ekkert kvikt kæmist út. Þó skrapp ein flugan út og þangað sem maðurinn var. Hann spyr hana að heiti og hvað þetta sé, en hún segir að bálið sem hann sjái sé helvíti, en jötunninn sé andskotinn sjálfur, en það sem mori í eldinum sé sálir fordæmdra, og segist hún vera ein af þeim og hrósar happi að hún slapp. En óðar en hún hafði talað saknaði jötunninn eins – því djöfullinn hirðir sína, – sá hvar sálin var, hremmdi hana með gogginum og þeytti henni langar leiðir inn í mitt bálið. Þá varð maðurinn hræddur og hljóp aftur svo sem fætur toguðu og átti hann þó langt því snarbratt var upp á móti og birti nú smátt og smátt. Fór hann nú aftur alla sömu leið.

Því er það sagt þegar menn óska ills að sá og sá eða það og það skuli fara norður og niður, að menn þykjast vita af þessari ferðasögu að þar sé víti. Þessari sögu til styrkingar telja menn enn versið í Passíusálmunum: „Andskotinn bíður búinn þar, í bálið vill draga sálirnar.“