Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Ferðamaðurinn, kýrin og bóndinn

Úr Wikiheimild
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
Ferðamaðurinn, kýrin og bóndinn

Einu sinni bjó bóndi nokkur hér á landi og hafði vænt og veglegt bú. Til hans kom einu sinni maður ókenndur og bað gistingar. Bóndi lét það eftir honum og spurði hvurt hann ætlaði ferð að stefna. Maðurinn kvaðst vera á leið til kaupstaðar. „Það er vel,“ segir bóndi, „því þá getum við orðið samferða.“ „Þá máttu verða snemma til,“ segir hinn, „svo við komustum þangað tímanlega.“ Bóndi játar því. Bóndi átti eina kú sem var það metfé að hún var sexspenuð og líka baulaði hún þegar hvur eykt var liðin svo hún gat verið bezta tímamark heimilisins. Þegar fólk var sofnað drundi kýrin. Hinn ókenndi maður vakti, fer á fætur hljóðlega, læðist niður og finnur kúna undir lofti hússins, leysir hana, leiðir út, fer með hana frá bænum unz hann kemur hvar stór hrísla stendur nærri veginum; þar bindur hann hana við. Síðan gekk hann heim aftur og lagðist niður í rúm sitt.

Um morguninn vakti bóndinn gest sinn. Þeir bjuggust að heiman og gengu af stað, en sem þeir komu gegnt þar sem kýrin var bundin sagði hinn aðkomni maður við bónda: „Gjörið svo vel að hafa hæga ferð um stund því hér í kotinu skammt frá á ég peninga hjá bóndanum og vil ég fara til og hafa þá út og get ég svo náð yður aftur.“ Bóndi játar því. Nú fer hinn þangað sem kýrin var bundin, tók hana og leiddi með sér og náði bónda nálægt öðru koti. Síðan sagði hann við bónda: „Ég hefi haft mikið að gjöra, búrinn í kotinu hafði engva peninga til, en ég vildi ekki bíða lengi borgunarinnar; tók ég því þessa kú heldur en ekkert.“ Bóndinn mælti: „Þetta er feit kýr og hefði ég ekki verið heima í nótt þá hefði ég sagt það væri mín kýr, því aldrei sá ég líkari kýr.“ Síðan komu þeir að bæ nokkrum; þar vildi hinn aðkomni maður fara huldu höfði, gengur fyrir ofan vallargarð, en biður bóndann vita hvurt bóndinn í koti þessu vilji ekki kaupa kúna, og ef hann keypti hana skyldi hann hafa út allt verðið, geyma það fyrir sig og afhenda sér, en hann skyldi útvega honum vel á staupi í kaupstaðnum í greiðalaun. Bóndinn fór heim í kotið með kúna; allt gekk vel; sá sem þar bjó keypti kúna. Síðan færði bóndi gesti sínum verðið; hann þakkaði honum vinsamlega, en þá þeir komu til kaupstaðarins og höfðu lokið erindagjörðum sínum sagði komumaður að þeir skyldu gjöra sér til góða nokkuð svo um drægi áður en skildu. „Ei hefi ég mikla peninga,“ segir hann, „en ég vil fara til ráðakonunnar hér í kaupstaðnum og biðja hana ljá mér tinföt,“ hvað eð hann gerði og sagðist ætla að kaupa til máltíðar, en þá hann ætlaði að ganga burt að kaupa matföngin sagði hann við bónda: „Látið sjá og ljáið mér yfirhöfn yðar, því ég vil ekki að fólk sjái hvað ég ber.“ Bóndi gjörði sem hann bað, en þetta gjörði hann til þess enginn þekkti sig. Síðan gekk hann út og hafði tinfötin undir yfirhöfninni, strauk sinn veg og kom aldrei aftur, en þegar menn höfðu lengi eftir honum beðið kom dóttir bóndans sem kúna átti, og sagði: „Faðir minn, hér hefur ljótt til viljað; við höfum misst góðu kúna okkar í nótt.“ Þá skildi bóndi hvurnig öllu var háttað og mælti: „Hvur fjandinn, ég er sjálfur búinn að selja mína eigin kú,“ og hló að öllu svo aðrir skyldu síður hæðast að því. Kýrin var töpuð, tinfötin ráðskonunnar farin og þar að auki yfirhöfn bóndans og þó var allt með góðum vilja af hendi látið, en bóndinn sem kúna missti varð að borga fyrir sig og þjófinn það sem þeir höfðu eytt í kaupstaðnum.