Fara í innihald

Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Flugan og uxinn

Úr Wikiheimild

Einu sinni bjuggu karl og kerling í koti. Þau áttu sér einn uxa; honum slátruðu þau eitthvert haust. Eftir það fóru þau bæði út í skóg að höggva sér hrís til eldiviðar. Þá kemur þar maður til þeirra í skóginn; hann frétti þau eftir hví þau væri að höggva skóg. Þau sögðust hafa átt einn uxa er þau hefði slátrað, og væri þau nú að afla sér eldsneytis til þess að sjóða hann við. Hinn ókunni maður spurði hvort nokkuð fleira manna væri í koti þeirra; þau sögðu það eigi vera. Hann lét það óvarlegt að þau skyldi engan hafa til gæzlu heima, þar sem slík föng væri fyrir. Þau kváðust ætla að eigi mundi til saka; sögðust þau hafa látið uxann inn í læstan kofa, en falið síðan lyklana undir hlóðarhellunni. Þegar maðurinn hafði fengið þessar fréttir skildi hann við þau karl og kerlingu; fór hann nú heim í kotið, tók lyklana undan hellunni og stal síðan uxanum úr kofanum; eftir það læsti hann aftur og lét lyklana í sama stað og hélt svo leið sína með þýfið.

Nú koma þau heim karl og kerling og sjá brátt vegsummerki er þau ljúka upp kofa sínum, að á burtu er allur uxinn; en þau sjá þar flugu eina mikla flögra suðandi innan um kofann; ætluðu þau nú víst að flugan myndi hafa etið uxann. Varð karl nú ákaflega reiður flugunni og elti hana með reidda öxi innan um allan kofann, en fékk eigi hæft hana að heldur. Um síðir settist flugan á nef kerlingu. Hún kallar þá upp og mælti: „Neyttu meðan á nefinu stendur, heillakarlinn minn!“ Karl lét sér ráð hennar að kenningu verða, hleypur að kerlingu með reidda öxina og heggur af öllu afli til flugunnar, en missir hennar eins og fyrri; þó verður höggið svo mikið að hann klýfur kerlingu að endilöngu, og fellur hún þar dauð niður. Karl lét sér hvergi bilt verða og bjó hann þaðan af einn í kotinu allt til elli.