Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri/Kímnisögur/Gísli mágur

Úr Wikiheimild
Fara í flakk Fara í leit
Íslenzkar þjóðsögur og æfintýri
þjóðsaga, edited by Jón Árnason
Gísli mágur

Einu sinni voru rík hjón sem áttu einn son barna, en sjaldan er einbirni annmarkalaust. Gísli ólst upp og varð stór og sterkur, og er hann var fulltíða maður útveguðu foreldrar hans honum góða og ríka giftingu. Hét konan Anna. Seinna tók Gísli allan arf eftir foreldra sína og með konu sinni erfði hann mikið fé; átti hún aðeins einn bróður sem arf tæki móts við hana. Þannig urðu þau hjón Gísli og Anna flugrík, en bráðum bar á því að Gísli var engi fyrirhyggjumaður og eyddist honum féð mjög. Ekki áttu þau hjón nein börn. Eftir nokkurra ára sambúð dó Anna kona Gísla og var það jafnsnemma að bú þeirra var þrotið og komst Gísli á húsganginn.

Það bar við nokkrum tíma seinna, eins og altítt er, að hjónaefni nokkur stofnuðu til brúðkaups og höfðu margt manna í boði sínu. Einn af þessum var bróðir Önnu sem var kona Gísla, ríkur maður og fésár. Einnig bar Gísla þar að húsum á húsgangsróli sínu og varð hann einn í boðinu. Þeir mágar höfðu ekki séðst um mörg ár og var þeirra ætíð fátt í milli. Þarna hittust þeir þá í brúðkaupsgleði og segir þá bóndi sem var bróðir Önnu, og heldur stygglega: „Þú ert búinn að fara til helvítis með allan auðinn hennar Önnu systur minnar, Gísli mágur.“ Gísli brá sér hvergi, en svarar með kulda: „Hann er þá kominn á undan þér,“ setur síðan á sig alvörusvip og glotti þó í kampa og mælti það sem í minnum er haft: „En hvað fæ ég fyrir flutninginn?“ Síðan var hann allténd kallaður Gísli mágur.